Óveður helgarinnar sérlega víðtækt

Eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var …
Eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var á Selfossi í dag hefur snjóþungi verið mikill. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Óveðrið sem var á landinu öllu um helgina er ekki hið versta sem hefur gengið yfir í vetur en líklega hið víðtækasta, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings hjá Veðurvaktinni. „Þetta er kannski versta veðrið miðað við það hversu víðtækt það var og miðað við hversu mörg landsvæði það hafði áhrif á,“ segir Einar.

Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast í óveðrinu og voru margar hverjar að frá klukkan tíu á laugardagskvöld og fram að kvöldmatarleyti á sunnudag. Helst snerust verkefni sveitanna um að koma starfsfólki framlínunnar til og frá vinnu.

Fyrstu dagar aprílmánaðar hafa verið óvenjukaldir. „Aprílmánuður byrjar gjörólíkt aprílmánuði í fyrra því þá fór í mjög góða og væna tíð. Þá leysti klaka og snjó úti um allt,“ segir Einar.

Að hans sögn er útlit fyrir að hiti fari hækkandi eftir páska.

„Það er eins og veðrið viti ekki alveg hvert það er að fara en spár eru nokkuð eindregnar með að það muni hlýna hér strax eftir páska. Maður er svo oft búinn að sjá breytingar í þessa veru að maður er eiginlega hættur að trúa þeim en þetta er búið að vera í spánum síðan á fimmtudag.“ ragnhildur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert