Í sóttkví en sparkaði í bíla í miðbænum

Maðurinn sparkaði í bíla í miðbænum og var handtekinn. Við …
Maðurinn sparkaði í bíla í miðbænum og var handtekinn. Við skýrslutöku kom í ljós að maðurinn á að vera í sóttkví. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í annarlegu ástandi á níunda tímanum í gærkvöldi í miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn stundaði það að sparka í bíla og var fluttur á lögreglustöð. 

Við skýrslutöku kom í ljós að maðurinn á að vera í sóttkví og var hann því einnig kærður fyrir brot á sóttvarnalögum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu í nótt. 

Alla komu 65 mál inn á borð lögreglu frá því klukkan 17 í gær til klukkan fimm í morgun. Nokkuð var um tilkynningar og kvartanir vegna hávaða og ónæðis í heimahúsum. 

Klukkan hálfsex í gær var kona á fertugsaldri stöðvuð á stolinni bifreið í grennd við Laugardalinn (hverfi 104). Konan er grunuð um akstur „undir áhrifum alls konar fíkniefna“, líkt og segir í dagbók lögreglu. Þá lagði lögregla hald á ýmis fíkniefni sem konan hafði meðferðis. Konan var látin laus að lokinni rannsókn. 

Þá voru tveir ökumenn til viðbótar stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert