Tilkynningum fjölgar frá börnum

Börn tilkynna í auknum mæli um slæmt ástand á heimilum …
Börn tilkynna í auknum mæli um slæmt ástand á heimilum vegna COVID-19-faraldursins, en hann hefur í sumum tilvikum í för með sér einangrun fjölskyldna inni á heimilum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í marsmánuði fjölgaði tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur með marktækum hætti: 11 tilkynningar bárust frá börnum, en þær hafa verið á bilinu 1-3 í marsmánuði undanfarin ár. 60 tilkynningar bárust frá nágrönnum eða almennum borgurum, en þær hafa verið á bilinu 22-39 undanfarin ár. 

21 tilkynning barst Barnavernd þá um heimilisofbeldi, en að meðaltali berast um 18 tilkynningar um heimilisofbeldi í hverjum mánuði, og 71 tilkynning barst þar sem barn var í yfirvofandi hættu, en þær hafa verið á bilinu 28-42 í marsmánuði undanfarin ár.

Vel er fylgst með þróun mála hjá Barnavernd Reykjavíkur í því ástandi sem skapast hefur vegna Covid-19, að því er kemur fram í tilkynningu frá nefndinni. Lykiltölur í marsmánuði sýna marktæka fjölgun tilkynninga frá almenningi. Fram eftir mánuði voru tilkynningar til barnaverndar færri en venjulegt er, en síðari hluta mánaðarins fjölgaði þeim umtalsvert, en þá fór einmitt mest að bera á afleiðingum faraldursins í samfélaginu.

Umræða skilar sér í fleiri tilkynningum

Opin umræða um þróun mála og nauðsyn þess að börn og ábyrgt fólk í nærumhverfi barna komi ábendingum og tilkynningum beint til barnaverndar hefur þróast hratt og farið víða síðustu vikur og endurspeglast í fjölgun tilkynninga frá þessum hópi, segir jafnframt í tilkynningunni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið helsti tilkynnandi til Barnaverndar Reykjavíkur í gegnum tíðina, en skólar og skólaþjónusta, ásamt velferðar- og heilbrigðisþjónustu, hafa bætt sig töluvert síðastliðinn áratug, með aukningu frá 62% til 118%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert