Bráðaerindum alltaf sinnt án bókana

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á blaðamannafundi …
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á blaðamannafundi almannavarna fyrr í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Eins og forsvarsmenn heilsugæslustöðva hafa oft sagt er áfram hægt að sækja sér þjónustu heilsugæslustöðva og lagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, áherslu á þetta á blaðamannafundi almannavarna fyrr í dag.

Heilsugæslustöðvar eru lokaðar um helgina og kemst starfsfólk þeirra því í kærkomið páskafrí, sagði Sigríður, en bætti við að margir myndu þó vinna aukavinnu vegna kórónuveirunnar. Eftir helgi verða allar heilsugæslustöðvar hins vegar opnar. 

Okkar fólk á fundinum í dag. Frá vinstri: Víðir Reynisson …
Okkar fólk á fundinum í dag. Frá vinstri: Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma D. Möller landlæknir, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala og Sigríður Dóra. Ljósmynd/Lögreglan

„Ég vil bara ítreka að öll þjónusta er í boði á heilsugæslustöðvunum en hún er bara með óhefðbundnu sniði. Við hvetjum fólk til að hika ekki við að hafa samband, fá ráðgjöf um erindi og hugsanlega tímabókun. Það er hins vegar mjög mikilvægt að hafa samband því að stöðvarnar eru að reyna að skipuleggja starfið þannig að lítil hætta sé á smiti. Við reynum að tryggja öryggi allra, bæði skjólstæðinga og starfsfólks.“ 

Sigríður bætti þó við að bráðaerindum væri alltaf sinnt án tímabókana og að hún vildi ekki að fólk sæti heima, bíðandi eftir símtali, ef erindi þyrfti skjóta aðstoð. 

Sýnataka og vitjunarþjónusta opin

Vitjunarþjónusta fyrir þá sem eru í sóttkví vegna kórónuveirunnar og veikjast verður rekin um páskahelgina, eins og fyrir hana og eftir, að því er fram kom í máli Sigríðar. „Til að mæta þessu hefur vitjunarbílum verið fjölgað,“ sagði hún um vitjunarþjónustuna.

Sömuleiðis verða tekin sýni alla helgina. Eins og áður er sú sýnataka einungis ætluð þeim sem sýna einkenni. Hvort fólk væri boðað í sýnatöku væri háð mati. „Við það mat er alltaf lögð áhersla á mat á heildrænni líðan, hvort það sé þörf á sýnatöku. Eru einhverjar nýtilkomnar breytingar? Hiti, hósti, beinverkir og þetta sem við höfum svo margoft rætt um,“ sagði hún en nefndi fleira sem kæmi til skoðunar við matið, svo sem breytt bragð- og lyktarskyn eða ferðalög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert