Hefja má opið helgihald 17. maí

Hallgrímskirkja.
Hallgrímskirkja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefja má opið helgihald í kirkjum landsins frá og með 17. maí. Samt sem áður mega ekki fleiri en 50 manns vera í kirkjurýminu í einu og gæta skal þess að tveir metrar séu ávallt á milli kirkjugesta.

Þetta kemur fram í bréfi biskups en BB.is greinir frá þessu og vísar í vef Vestfjarðaprófastsdæmis.

Ekki er gert ráð fyrir altarisgöngu eða öðrum helgisiðum þar sem krafist er nándar og nærveru.

Heimilt er að ferma eitt til tvö börn í einu en ekki er ætlast til að prestur taki í hönd fermingarbarns né leggi hönd á höfuð þess eins og venjan er. Þá verður ekki gengið til altaris.

Að hámarki 50 manns skulu vera í fermingarveislum en ekki er æskilegt að eldra fólk eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma taki þátt í mannamótum eða fjölmennum samkomum, samkvæmt ráðleggingum sóttvarnalæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert