Miskunnarlaus aftaka náðist á myndband

Lítil svartþrastafjölskylda sést hér í hreiðri sínu efst uppi á fuglastandi í garði í Grafarvoginum á dögunum. Fjórir ungar þiggja matargjöf frá umhyggjusömum foreldrum og eiga sér einskis ills von þar til skyndilega hriktir í staurnum, móðirin þeytist úr hreiðrinu og á brott, og ekki að ófyrirsynju: Svangt kattardýr hefur klifrað upp að hreiðrinu og ræðst til atlögu. 

Það sem síðan fer í hönd þarf ekki að fjölyrða um, en miskunnarlaust er það.

Heimiliskettir eru grimmir þegar þeir geta.
Heimiliskettir eru grimmir þegar þeir geta. Skjáskot

Eigendur garðsins þar sem þetta fór fram áttu sér ekki frekar ills von: „Ég ímyndaði mér bara að köttur kæmist aldrei þarna upp en einhvern veginn klifrar hann upp tréð greinilega, og stekkur þaðan efst í staurinn,“ segir Einar, eigandi garðsins. 

Staurinn átti að vera sérstaklega til þess fallinn að verja …
Staurinn átti að vera sérstaklega til þess fallinn að verja hreiðrið frá kettinum. Það dugði ekki til. Ljósmynd/Aðsend

Staurinn var semsagt sérstök ráðstöfun gegn öðrum eins hamförum, en þrisvar sinnum hefur köttur gengið frá hreiðri í garðinum hjá Einari. Hann er ekki beint sáttur. „Þetta endurtekur sig bara og mér liggur við að beina því til fólks að halda köttunum inni á þessum tíma, eða hvað myndi gerast ef hundurinn minn færi að fara í garða hjá nágrönnunum að rífa í sig beðin? Þá held ég að eitthvað myndi heyrast í fólkinu,“ segir Einar.

Hryllingsmynd

Einar hefur lengi verið með fuglahreiður í garðinum og er með vefmyndavélar sem vakta þau. Það gerast ekki stórtíðindi á hverjum degi en stundum verða viðburðir eins og nú. „Sumt er barnvænt en annað er bara hryllingsmynd, eins og þetta myndband,“ segir Einar. Hann sendi mbl.is myndböndin.

Ungarnir voru að sögn Einars átta daga gamlir orðnir, nokkuð stálpaðir raunar, og að óbreyttu á leið úr hreiðrinu eftir um viku enn. Lítið varð úr þeim framtíðarhorfum en eins og sést kemur kötturinn aftur eftir fyrstu atlöguna og sækir annan unga og hafði þar með slátrað þeim öllum.

Svartþrestir verpa yfirleitt um 3-5 eggjum og liggja á þeim í eins og tvær vikur. Ungarnir eru síðan hjá foreldrum sínum í aðrar tvær vikur. Varptíminn er alveg frá mars fram í september en nær hámarki yfir sumarmánuðina. 

Fréttin var uppfærð. Fullt nafn viðmælanda hefur verið fjarlægt að hans ósk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert