Hæstiréttur tekur fyrir mál Eiríks og Jóns

Hæstiréttur hefur veitt leyfi fyrir því að mál Jóns Höskuldssonar …
Hæstiréttur hefur veitt leyfi fyrir því að mál Jóns Höskuldssonar og Eiríks Jónssonar verði tekin fyrir við réttinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur fallist á málskotsbeiðni Eiríks Jónssonar og Jóns Höskuldssonar sem báðir sóttu um embætti dómara við Landsrétt þegar dómstóllinn var stofnaður. Telja þeir að þáverandi dómsmálaráðherra hafi brotið lög með að líta fram hjá þeim við skipun dómara í embætti.

Héraðsdómur dæmdi íslenska ríkið til að greiða Jóni 4 milljónir í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur vegna málsins. Þá var viðurkennd skaðabótaskylda í máli Eiríks. Landsréttur sagði hins vegar ekki skaðabótaskyldu í málinu og felldi skaðabæturnar út í máli Jóns. Hins vegar voru miskabæturnar staðfestar. Einn dómari af þremur í Landsrétti skilaði þó séráliti.

Eftir þetta hafa þeir báðir sótt um embætti dómara við dómstólinn að nýju og var Eiríkur skipaður dómari þar um mitt síðasta ár, en hæfnisnefndin sem þá var að störfum taldi Eirík hæfastan umsækjenda.

Eiríkur Jónsson var skipaður dómari við Landsrétt í fyrra.
Eiríkur Jónsson var skipaður dómari við Landsrétt í fyrra. mbl.is/Eggert

Í ákvörðunum Hæstaréttar að veita áfrýjunarleyfi kemur fram að líta verði svo á að úrslit þessara mála geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem þeir Eiríkur og Jón vísa til í málskotsbeiðnum sínum. Er því fallist á að veita leyfið.

Vísa þeir báðir til þess að dómur Hæstaréttar í þessum málum myndi hafa verulegt almennt gildi í því að reyna á embættisfærslu ráðherra, meðferð opinbers valds, saknæmismælikvarða sem styðjast beri við, orsakasamhengi og sönnun tjóns. Þá hafi málið einnig mikið fordæmisgildi fyrir túlkun ákvæða laga um dómstóla er varða skipun dómara sem og þýðingu Hæstaréttardóma Ástráðs Haraldssonar og Jó­hann­esar Rún­ars Jó­hanns­sonar, en þeir voru hinir tveir dómararnir sem sóttu um embættin á sínum tíma, voru meðal 15 efstu hjá matsnefndinni, en að lokum ekki skipaðir.

Áfrýjunarleyfi Jóns

Áfrýjunarleyfi Eiríks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert