Ríkið dæmt til að greiða 5,1 milljón í bætur

mbl.is/Þorsteinn

Íslenska ríkið var í dag dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Jóni Höskuldssyni héraðsdómara fjórar milljónir í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra að líta fram hjá honum þegar skipað var í embætti dómara við Landsrétt. Þá var í öðru máli viðurkennd bótaskylda ríkisins í sambærilegu máli Eiríks Jónssonar lagaprófessors sem einnig hafði verið meðal umsækjenda um starf dómara við Landsrétt.

Voru bæði Jón og Eiríkur á lista matsnefndar um 15 hæfustu umsækjendurna. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað hins vegar að víkja frá niðurstöðu matsnefndarinnar um hæfi dómara og gekk framhjá fjórum af þeim 15 sem nefndin mat hæfasta.

Hafði Hæstiréttur áður komist að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði gengið framhjá tveimur öðrum umsækjendum án þess að gera sjálfstætt mat á hæfi þeirra. Viðurkenndi Hæstiréttur ekki skaðabótakröfu umsækjendanna Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, en dæmdi ríkið til að greiða þeim 700 þúsund í miskabætur hvorum.

Jón hafði krafið ríkið um 30,7 milljónir í skaðabætur og 2,5 milljónir í miskabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina