2,2 milljarðar í 3.400 sumarstörf

Lilja Al­freðsdótt­ir menntamálaráðherra á kynningarfundinum í dag.
Lilja Al­freðsdótt­ir menntamálaráðherra á kynningarfundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnvöld munu verja 2,2 milljörðum króna í að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Komi í ljós að sá fjöldi sumarstarfa sem skapaður verður nái ekki til nægilega marga námsmanna verður leitað leiða til að skapa fleiri störf, eða tryggja aðrar leiðir til framfærslu. 

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra kynntu í dag vinnumarkaðsúrræði fyrir námsmenn. 

Átakið er unnið í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og miðað verður við ráðningartímabilið 1. júní til 31. ágúst. 

Kröfur stúdenta til atvinnuleysisbóta í sumar hafa verið háværar að undanförnu, en Lilja og Ásmundur hafa bæði sagt að áherslan verði lögð á að skapa störf og aðrar leiðir sem feli í sér virkni áður en aðrar leiðir til að tryggja framfærslu verði kynntar. 

Á kynningarfundinum í dag kom fram að 300 milljónir króna verði settar í sumarnám í framhaldsskólum og 500 milljónir í sumarnám í háskólum, þar af 250 til Háskóla Íslands. Boðið verður upp á greiðsludreifingu á skrásetningargjöldum í opinberum háskólum. Þá verður mikil innspýting í vísinda,- nýsköpunar- og rannsóknarverkefni, meðal annars 400 milljóna viðbótarframlag í Nýsköpunarsjóð námsmanna. 

Lilja hrósaði LÍN á fundinum í dag og sagði sjóðinn hafa brugðist hratt og greiðlega við breyttum aðstæðum. Einingar dragast nú ekki frá einingarétti né þurfa að tilheyra fastri námsbraut námsmannsins, en Lilja segir þetta skipta sköpum fyrir næsta haust. 

Þá minntist Lilja einnig á Menntasjóð námsmanna, en frumvarp um sjóðinn er nú til umfjöllunar á Alþingi. Lilja segir að um sé að ræða stóra kerfisbreytingu sem komi til með að bæta hag námsmanna til frambúðar. 

3.400 störf í fyrstu lotu

Í máli Ásmundar Einars kom fram að ljóst er að námsmenn hafi skerta möguleika til að afla sér tekna á komandi sumri. Ásmundur telur það skynsamlegt að verja fjármunum í að skapa störf fyrir námsmenn. Þau skili sér í reynslu og virkni, auk þess að skila verðmætum til hagkerfisins. 

Markmiðið er við að til verði 3.400 störf í fyrstu lotu fyrir námsmenn 18 ára og eldri. Ef í ljós komi að þessi fjöldi starfa sé ekki nægilegur, verði skoðað að auka fjármagn í annaðhvort fleiri sumarstörf eða aðrar leiðir til að tryggja framfærslu námsmanna. Þegar hefur fjármagni verið úthlutað til sveitafélaga vegna 1.700 starfa. Flest eru á höfuðborgarsvæðinu, alls 809. Þá séu stofnanir ríkisins að skila inn tillögum að störfum, en þegar hafa umræddar stofnanir skilað inn 1.700 störfum til viðbótar þeim störfum sem sveitarfélög bjóða upp á. 

Um mánaðamót mun að sögn Ásmundar liggja fyrir hversu margir námsmenn hafi sótt um sumarstörf hjá sveitarfélögum og hinu opinbera. Í framhaldi af því verður metið hve mörg störf þurfi til viðbótar og brugðist við í samræmi við það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert