Alvarlegar athugasemdir gerðar við bréf Boga

Drífa Snædal, nýkjörinn formaður ASÍ.
Drífa Snædal, nýkjörinn formaður ASÍ. mbl.is/Valli

Alþýðusamband Íslands hefur fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) sent inn formlega kvörtun til Samtaka atvinnulífsins vegna bréfaskrifa Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, til flugfreyja. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.

Eftir að fundi samninganefnda FFÍ og Icelandair hjá ríkissáttasemjara lauk án árangurs í gær sendi Bogi félagsmönnum FFÍ tölvupóst með tillögu Icelandair að þeim kjarasamningi sem flugfélagið hefur boðið flugfreyjum.

Almenn óánægja með bréfaskrif Boga

Samninganefnd FFÍ segir að með tölvupósti Boga til félagsmanna FFÍ hafi Icelandair gengið á bak orða sinna og Sigrún Jónsdóttir, formaður samninganefndar FFÍ, segir tölvupóstinn hafa verið „grafalvarlegt inngrip í kjarasamningsviðræður“.

Icelandair sendi félagsmönnum Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) tilboð sitt í fyrradag án samþykkis samninganefndar FÍA. Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, sagðist ekki vera hress með það í samtali við mbl.is.

Bogi Nils sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann líti hvorki svo á að bréfasendingar hans hafi verið brot á loforðum eða að í þeim hafi falist inngrip í kjaraviðræður.

Verið að sniðganga kjörna forystu FFÍ

„Við gerðum alvarlegar athugasemdir við það að þarna væri verið að sniðganga samninganefndina og sniðganga þær reglur sem gilda í kjarasamningum, gera lítið úr kjörinni forystu flugfreyjufélagsins í rauninni með því að senda tilboð beint til félagsmanna sem samninganefndin var búin að fara mjög gaumgæfulega yfir, ráðfæra sig við sitt bakland og hafna,“ segir Drífa og heldur áfram:

„Þarna var í rauninni Icelandair að fara mjög eðlilega aðferð í kjarasamningum og fara fram hjá þeim leiðum sem viðurkenndar eru þar.“

Ætlast til að SA sjái til þess að aðildarfélög fari eftir reglum

Kvörtunin var send til Samtaka atvinnulífsins í gærkvöldi og fékk ríkissáttasemjari afrit af kvörtuninni. „Hann þarf náttúrulega líka að taka þetta upp við samningsaðilana, ríkissáttasemjari sem miðlari þessarar deilu og svo að sjálfsögðu ætlumst við til þess að Samtök atvinnulífsins sjái til þess að þeirra aðildarfélög eða þeirra fyrirtæki fari eftir reglum,“ bætir Drífa við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert