Aldrei bakað vonda köku

Gulli er duglegur að pósta myndum frá starfseminni á instagramsíðunni …
Gulli er duglegur að pósta myndum frá starfseminni á instagramsíðunni gulliarnar. Þar má finna bakkelsi sem kitlar bragðlaukana svo um munar. mbl.is/Ásdís

Gunnlaugur Arnar Ingason, kallaður Gulli, er 25 ára kondítormeistari. Hann lét ekki kórónuveiruna stöðva sig og opnaði veisluþjónustu á sumardaginn fyrsta. Viðtökurnar hafa komið skemmtilega á óvart.

Hvatning frá mömmu

„Ég hef alltaf haft áhuga á matreiðslu og bakstri og fylgdist mikið með svoleiðis þáttum í sjónvarpinu. Ég hef alltaf haft ástríðu fyrir mat og finnst leiðinlegt að borða vondan mat. Sumir félagar mínir borða bara til að nærast,“ segir Gulli.

„Mamma hvatti mig til þess að fara í bakarann; hún vissi af þessum áhuga hjá mér. Hún sendi mig í Kökulist hér í Hafnarfirði og sagði mér að banka þar upp á og biðja um að komast á samning. Jón Arilíus tók mig í læri og ég hef ekki litið til baka síðan. Mér fannst þetta hrikalega gaman frá fyrsta degi. Mér finnst gaman að vinna og afkasta einhverju. Það er góð tilfinning að skila af sér góðri vöru.“

Hefurðu einhvern tímann bakað vonda köku?

„Nei, ég man ekki eftir því,“ segir Gulli og brosir.

Lærði hjá sögufrægu kondítoríi

Gulli útskrifaðist með sveinspróf í bakstri og hélt svo á vit ævintýranna til Kaupmannahafnar. „Ég fór strax eftir útskrift og lærði þar í Conditori la Glace sem á 150 ára afmæli í ár. Þetta er sögufrægt kondítorí sem heldur í gamlar hefðir og er mikið handverksbakarí. Þetta var yndislegur tími og ég sakna margs þaðan en ég fílaði Kaupmannahöfn alveg í botn,“ segir Gulli en námið tók tvö ár.

Gulli skreytir terturnar gjarnan með ferskum berjum, makkarónukökum og gulli.
Gulli skreytir terturnar gjarnan með ferskum berjum, makkarónukökum og gulli. mbl.is/Ásdís


Gulli flutti heim í janúarbyrjun en hann hugðist taka þátt í heimsmeistaramóti kondítora 25 ára og yngri í Taívan en því var frestað vegna kórónuveirunnar. 

Allt selst upp

„Svo breytast hlutirnir hratt á tveimur vikum í þessum heimsfaraldri og veiran komin til Evrópu. Ég var eiginlega búinn að ráða mig í vinnu þegar samkomubannið var sett á. Þá breyttist allt,“ segir Gulli og segir starfið þá ekki hafa verið lengur í boði. Nú voru góð ráð dýr.
„Þegar ég var að æfa fyrir keppnina var ég duglegur að pósta á Instagram og var mjög sýnilegur þar. Fólk var að spyrja mig hvort það gæti keypt af mér tertur eða konfekt, en þá var ég ekki með neitt til sölu né neina aðstöðu til að sinna slíku. Þá kviknaði þessi hugmynd, að opna kondítorí, því það var enga vinnu að fá nú þegar veitingabransinn á Íslandi varð fyrir svona miklu höggi,“ segir Gulli sem tók sig til og leigði húsnæði, græjaði á stuttum tíma bakarofn, vélar og vaska og opnaði Gulli Arnar – Fine pastry and delicacies.

Einn á vaktinni

Það hefur verið nóg að gera hjá hinum unga kondítormeistara. „Það var brjálað að gera fyrir mæðradaginn og ég hafði ekki undan. Ég geri allt sjálfur og er einn á vaktinni og það er allt gert frá grunni. Ég er hér frá sex á morgnana og oft til tólf á kvöldin. Það er mest að gera í kringum helgarnar. En það er lokað á mánudögum; það er minn frídagur,“ segir Gulli. 
„Ég sel hér tertur og makkarónurnar og svo hef ég verið að búa til litlar kökur sem henta vel í eftirrétti og er það selt í stykkjatali. Það hefur verið mjög vinsælt.“

Kökurnar hans Gulla eru ekkert slor.
Kökurnar hans Gulla eru ekkert slor. mbl.is/Ásdís

Ítarlegt viðtal er við Gunnlaug í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert