Langstærsta samkoma í langan tíma

Viðtekið er orðið að nefna sundfúsa Íslendinga sundþyrsta og þarf sú lýsing ekki að vera misvísandi nema ásetningur komi til. Vitaskuld er átt við þá sem þrá að lauga sig, en ekki drekka sundlaugarvatnið, nema ef vera skyldi í þeim tilfellum þar sem söknuðurinn hefur algerlega borið menn ofurliði. Slíkra öfga gætti ekki í nótt en langþráðir endurfundir við laugina voru þó í hæsta máta gleðilegir.

Sundþyrstir umræddir fengu allar sínar óskir uppfylltar þegar laugar víða um land voru opnaðar eina mínútu eftir miðnætti. Aðdragandinn var langur: Tæpir tveir mánuðir eru síðan hver einasta sundlaug landsins þurfti að skella í lás vegna herts samkomubanns. Almenningur fylkti því liði þegar því var loks aflétt, og mörg hundruð manna raðir mynduðust fyrir utan sumar sundlaugar.

Þessi almenningur var ekki beint þverskurður af þjóðfélaginu, eins og mátti sjá fyrir utan eina þessara lauga, Laugardalslaug. Þar var meðalaldur frekar lægri en hærri. Stemningin byrjaði í röðinni og var ekki alls kostar ólík þeirri sem kynni að myndast í röð fyrir utan skemmtistað, en opnunin var einmitt það sem næst hefur komist einhverri næturlífsmynd í langan tíma. Og eins og á góðum skemmtistað var laugin fljót að fyllast þegar hersingunni var hleypt inn og bestu sætin í pottunum voru fljót að fara.

Langstærsta samkoma í langan tíma

mbl.is var á staðnum og tók stöðuna á mannskapnum. Þegar fréttamenn yfirgáfu vettvang var orðið ljóst að laugfyllir var orðinn. Takmörkin voru 350 og búið var að telja rúmlega 300 inn.

Sú tölfræði gerir opnun sundlaugarinnar að langstærstu samkomu sem blásið hefur verið til á Íslandi frá upphafi samkomutakmarkana í mars, alltént að stærstu samkomu sjálfviljugra einstaklinga, því barnaskólar hafa verið opnir frá 4. maí. Þær samkomur eru þó sýnu niðurskipaðri og fara fram í aðskildum einingum en ekki einum potti, eins og mætti segja um miðnæturopnunina í gær. Og þrátt fyrir viðleitni sundlaugarstarfsmanna til að knýja á um slíkt var ekki að sjá að tveggja metra reglu væri fylgt í hvívetna. Fólk dreifðist þó jafnt um pottana, eins og er lífræn skipan í sundlaugum.

Sundlaugin tók fyrir að fleiri kæmu inn en 350 og hvort það hafi þýtt að ekki hafi allir komist að sem vildu er óljóst, enda var gestum velkomið að bíða í röð eftir að pláss losnaði. Sami raunveruleiki blasti við sundgestum víðar um Reykjavík, sem þurftu að bíða eftir að losnaði um. Þar mun þó hafa verið bót í máli að í dag er mánudagur eins og hver annar, þannig að skyldan kallar og á endanum þurfa allir að fara í háttinn. Skuldbindingalausir þó kannski síður og nokkrir úr þeim flokki voru ekkert að drífa sig og mættu í rólegheitunum þrjú, fjögur, fimm. Upp úr sex fór síðan erkiandstæða síðastnefnds hóps að mæta, nefnilega rólegri aldurshópar og fastagestir.

Þjónustutími er nú hefðbundinn, þó að aðeins megi helmingur löglega leyfðs fjölda gesta vera í lauginni hverju sinni. 1. júní miðast það við 75% en 15. júní má hleypa alveg inn eftir starfsleyfi. Svoleiðis er það fyrst með hvelli en síðan smátt og smátt, sem allt mjakar sér í langþráðan vanagang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert