„Ætlum að láta kylfu ráða kasti“

Frá vinstri: Bergþór Pálsson, Páll Bergþórsson og Albert Eiríksson. Þeir …
Frá vinstri: Bergþór Pálsson, Páll Bergþórsson og Albert Eiríksson. Þeir leggja land undir fót í sumar og segir Albert frá því á bloggsíðu sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við ætlum að vera í um sex vikur að þessu og byrjum bara um helgina,“ segir matarbloggarinn Albert Eiríksson sem ásamt eiginmanni sínum, Bergþóri Pálssyni óperusöngvara, og tengdaföður, Páli Bergþórssyni veðurfræðingi, ætlar að ferðast um landið í sumar. Hann hyggst deila upplifuninni með lesendum á bloggsíðu sinni, alberteldar.com, sem breytist þá um tíma úr matarsíðu yfir í ferðasíðu.

„Við ætlum bæði í dagsferðir og taka heilu landshlutana fyrir. Við ætlum svolítið að láta kylfu ráða kasti. Þetta verður ekki alveg niðurnjörvað,“ segir Albert um ferðatilhögunina. „Okkur langar að heimsækja staði sem við höfum ekki séð áður; bæði okkur Bergþór og líka Pál. Þótt hann hafi komið víða hefur hann ekki komið við alls staðar.“

Fjölbreytileikinn verður í hávegum hafður. „Gististaðir, veitingahús og náttúruperlur. Við viljum opna augu fólks fyrir því að það er hægt að gera svo margt. Ekki bara fara á kaffihús eða heimsækja frænku. Eins og við Gullfoss og Geysi er víða búið að gera svo fína hluti. Við viljum gera því skil.“

Eyjunum gerð skil

Albert segir þá félaga vilja einblína á eyjarnar umhverfis landið. „Við ætlum ekkert að gleyma eyjum í kringum landið. Fara til Flateyjar, Grímseyjar, Hríseyjar og fleiri eyja ef við getum.“

Hugmyndin er að heimsækja þrjár Grímseyjar við landið. „Í fyrra fórum við út í Grímsey á Breiðafirði og ætlum þangað aftur. Það er önnur í mynni Steingrímsfjarðar og svo þessi fræga fyrir norðan,“ segir hann.

„Það var tvennt sem kom til þegar hugmyndin kviknaði. Annars vegar var kona í Eyjafjarðarsveit sem er með gistiheimili og bauð okkur að koma. Við fórum að skoða þetta og fannst spennandi. Og svo fórum við á Gullfoss og Geysi fyrir stuttu. Það er þannig með mig, og örugglega marga á Íslandi, að ég hafði ekki komið þangað í mörg ár. Ég var svolítið heillaður,“ segir Albert en hann segir aðstöðuna hafa verið góða, margt hafi verið gert þar á síðustu árum sem hann hafði ekki séð.

„Það var allt þarna til fyrirmyndar og í raun allt öðruvísi en þetta var í minningunni. Þá vorum við bara: „Já, gerum þetta.““

Albert segir fólk hafa komið að tali við sig vegna hugmyndarinnar. „Þetta hefur aðeins verið að spyrjast út og allir hafa tekið vel í þetta. Við höfum unnið þetta með markaðsstofunum um landið. Við fáum hugmyndir hjá þeim og þau hjálpa okkur að skipuleggja. Hvert maður fer og allt það. Það er svo margt að gerast og maður veit ekki um nema brot af því sem er í boði. En auðvitað er það þannig að maður getur ekki gert öllu skil,“ segir Albert og bætir við að allar ábendingar séu vel þegnar, t.d. ef fólk vill fá þá félaga í heimsókn.

Nánar er rætt við Albert um ferðalagið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert