Bandarísk landmælingagögn nýtt við gerð þrívíddarlíkana af íslensku landslagi

Landhæðarupplýsingar af Íslandi sem bandarísk gervitungl hafa safnað á undanförnum árum eru nú aðgengilegar öllum og nýtast meðal annars við að gera þrívíddarlíkön af íslensku landslagi. Með opnum hugbúnaði ætti því hver sem er að geta gert líkan af hvaða stað sem er.

Landhæðarlíkanið sem byggir á bandarísku gögnunum, sem eru hluti af kortlagningu Bandaríkjamanna af norðurskautinu, var gefið út í upphafi árs af Landmælingum Íslands. Með því fást upplýsingar sem hægt er að nýta til að gæða landakort lífi og færa þau í þrívídd með forritinu QGIS sem er opinn hugbúnaður. Fjöldi kennslumyndbanda er á netinu um hvernig á að nota forritið. Möguleikarnir á nýtingu gagnanna eru nánast ótakmarkaðir að sögn Ástu Kristínar Óladóttur, fagstjóra hjá Landmælingum Íslands. 

„Þegar gögn eru opnuð þá opnast svo margt sem við getum ekki séð fyrir og fólk getur byrjað að vinna með gögn úr ólíkum áttum saman og séð alls konar samlegðaráhrif,“ segir Ásta en í myndskeiðinu er rætt við Ástu og þar má sjá þrívítt kort af Esjunni sem hún gerði með upplýsingum í landhæðarlíkaninu. Ofan á það setti hún gamalt jarðfræðikort með því að finna fjóra sameiginlega punkta og hið sama væri hægt að gera með flestum kortum sem hafa verið gerð af landinu undanfarin hundrað ár.

Landhæðarlíkön eru grunnur að útreikningum af ýmsu tagi, hvort sem það eru flóðalíkön eða til að spá fyrir um afleiðingar af hræringum í jarðskorpunni. Miklir möguleikar eru að opnast í þessum efnum og því meira af upplýsingum, sem safnað hefur verið í gegnum tíðina, verða opnaðar fyrir almenna notkun því betra segir Ásta.

Hér er að finna lýsingagátt þar sem hægt er að sjá yfirlit yfir gögn sem íslenskar stofnanir hafa safnað í gegnum tíðina.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert