Núverandi afkastageta er veikleiki í sóttvörnum

Bæta þarf tækjakost, aðstöðu og mönnun á sýkla- og veirufræðideild …
Bæta þarf tækjakost, aðstöðu og mönnun á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Mynd/mbl.is

Sú óvissa sem ríkir um fjölda komufarþega gæti stofnað verkefninu um skimun á landamærum Íslands í hættu þar sem möguleiki er á að farið verði fram úr afkastagetu. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans getur unnið úr 500 sýnum á dag.

Þetta kemur fram í niðurstöðukafla skýrslu verkefnisstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum sem skilað var til heilbrigðisráðherra í dag.

Verk­efn­is­stjórn­in var skipuð á grund­velli til­lögu heil­brigðisráðherra og dóms­málaráðherra um að stefna að því að bjóða komufarþegum upp á möguleikann á sýnatöku við kom­una til lands­ins í stað þess að sæta 14 daga sóttkví eða að fram­vísa vott­orði sem sótt­varna­lækn­ir met­ur gilt. Sá kost­ur á að standa til boða eigi síðar en 15. júní.

Niðurstaðan er sú að það sé „framkvæmanlegt“ að hefjast handa við skimun á landamærum en að leysa þurfi úr mörgum verkþáttum áður en það verkefni fer af stað.

Nauðsynlegt að ráðast í úrbætur á deildinni

Í skýrslunni kemur fram að nauðsynlegt sé að ráðast í úrbætur á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans óháð verkefninu um skimun á landamærum.

„Núverandi afkastageta deildarinnar, tækjakostur, aðstaða og mönnun er veikleiki í sóttvörnum og almannavörnum landsins m.t.t. nýrrar bylgju COVID-19 eða faraldra annarra smitsjúkdóma,“ segir þar.

Kostnaður við hvert sýni er áætlaður undir 50 þúsund krónum svo framarlega sem tekin verði fleiri en 107 sýni á dag. Kostnaður fer lækkandi eftir því sem fleiri sýni verða tekin og er tæpar 23 þúsund krónur miðað við 500 sýni á dag.

Frávísunarheimildir á landamærum verði að vera skýrar 

Verkefnisstjórnin tekur fram í skýrslunni að nauðsynlegt sé að frávísunarheimildir á landamærum sé skýrar gagnvart þeim sem ekki ætla að hlíta sóttvarnaráðstöfunum.

Einnig sé nauðsynlegt að kveða á í lögum um ábyrgð flugrekenda á forskráningu farþega til að fækka smitandi einstaklingum sem gætu komið til landsins og til þess að sýnatökuferlið geti gengið hratt fyrir sig.

Þá sé upplýsingagjöf til ferðamanna mikilvægur hluti verkefnisins. Það er mat verkefnisstjórnar að það þurfi að bæta við virkni smitrakningarappsins Rakning C-19 og upplýsingar til ferðamanna í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert