Veruleg áhætta fyrir reglulega starfsemi

Sjö forsendur eru gefnar fyrir því að Landspítali geti sinnt …
Sjö forsendur eru gefnar fyrir því að Landspítali geti sinnt verkefnum sem hljótast af opnun landsins fyrir ferðamönnum og áhættu sem því fylgir á útbreiðslu COVID-19. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áhætta vegna opnunar landamæra Íslands 15. júní fyrir reglulega starfsemi Landspítalans, sérstaklega í sumar, er veruleg. Þetta kemur fram í heildarmati Páls Matthíassonar, byggðu á áhættumati farsóttarnefndar Landspítala annars vegar og Rannsóknastofu Landspítala hins vegar, sem sent hefur verið heilbrigðisráðuneytinu.

Í bréfi Páls til ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins segir að fyrst og fremst hafi það verið samfélagslegt viðbragð Íslendinga sem skóp grunninn að góðum árangri í kórónuveirufaraldrinum og að ekki sé hægt að ganga út frá því að sama módel virki í öðrum faraldri, á öðrum tíma með öðrum sjúklingahópi.

Sjö forsendur eru gefnar fyrir því að Landspítali geti sinnt verkefnum sem hljótast af opnun landsins fyrir ferðamönnum og áhættu sem því fylgir á útbreiðslu COVID-19.

Í fyrsta lagi þarf að tryggja aukna greiningargetu veirurannsóknarstofu Landspítala, en þar eru helstu áskoranir tímalína tækjakaupa og húsnæðisbreytinga. Jafnframt segir að hugsanlega þurfi að skoða að leita tímabundið út fyrir spítalann hvað þetta varðar. Í öðru lagi þarf að tryggja strax að hugbúnaðarlausnir vegna gervikennitalna séu til staðar.

Mönnun stærsta áskorunin

Í þriðja lagi þarf að tryggja nauðsynleg úrræði fyrir einstaklinga sem eru smitaðir en ekki veikir, en grundvallaratriði er að Landspítalinn geti vísað fólki í sóttkví og/eða einangrun á tryggan hátt utan spítala. Í fjórða lagi er mikilvægt að til staðar sé úrræði sem geti á mörgum tungumálum leiðbeint ferðalöngum um íslenska heilbrigðisþjónustu.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Í fimmta lagi þarf að endurskoða áætlanir um mönnun starfseininga í ljósi þess að orlofstími fer í hönd, og segir í bréfi Páls að þetta sé mesta áskorunin. Í sjötta lagi segir að ljóst sé að strax við fyrsta smit muni mæða mikið á starfseminni, sem sé orðin þreytt af erfiðri baráttu við farsóttina og sé á minni afköstum vegna sumarleyfa. „Mönnun verður mjög flókin og staða gjörgæsludeilda sérstaklega, þar sem aukið álag er á þær deildir yfir sumarið vegna slysa, en takmörkuð geta til að bæta þar við mannskap eins og gæti þurft.“

Í sjöunda og síðasta lagi þarf að leggja áherslu á tryggingamál sjúklinga, er ljóst sé að kostnaður geti orðið mikill hjá einstaklingum með COVID-19 á spítalanum.

Mun ekki ná að greina umbeðinn fjölda sýna

Í niðurstöðum Páls kemur fram að segja megi að faraldurinn sem gekk yfir í febrúar til maí hafi afhjúpað margvíslega veikleika í heilbrigðiskerfinu, en að á sama tíma hafi margvíslegur styrkur þess einnig birst: sveigjanleiki, hugmyndaauðgi og snerpa og vel menntað og öflugt starfsfólk. „Önnur bylgja faraldurs verður eins og áður segir líklega með öðru móti og mun því draga fram aðra veikleika en verður að sama skapi mætt með sömu styrkleikum.“

Þá segir að greiningar einkennalausra ferðamanna séu að svo komnu máli ekki trygging fyrir því að sjúkdómurinn sé ekki til staðar. Íslendingar séu mjög næmt þýði og því megi búast við smitum. „Landspítali mun ekki ná að greina umbeðinn fjölda sýna (sé miðað við 20 þús. komur) fyrir 15. júní, en getur aukið nokkuð við afkastagetu sína, svo huga þarf að vali einstaklinga í sýnatöku.“

„Áhætta fyrir reglulega starfsemi Landspítala í sumar sérstaklega er því veruleg og mun spítalinn strax fara á hættustig með fyrsta sjúklingi sem þarfnast innlagnar, með tilheyrandi röskun á starfseminni. Geta spítalans til að mæta mögulegum faraldri síðar á árinu er meiri, þar sem þá má ætla að tími hafi fengist til betri undirbúnings og áskoranir í mönnun minni að afstöðnum sumarleyfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert