Hávaðaútköll og hnefahögg

Lögreglustöðin á Hverfisgötu.
Lögreglustöðin á Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Lögreglumenn á öllum stöðvum höfuðborgarsvæðisins þurftu að sinna fjórum útköllum vegna hávaða og ónæðis í heimahúsum í gærkvöldi og nótt. Alls voru átta vistaðir í fangageymslum lögreglunnar á Hverfisgötu frá því síðdegis í gær til klukkan 5 í morgun. Heildarfjöldi skráðra mála frá því klukkan 17 í gær þangað til 5 í morgun var 57.

Einn þeirra var maður sem var handtekinn grunaður um ölvun undir stýri í Austurbænum (hverfi 105) í gærkvöldi. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð og þar veittist hann að lögreglumanni með hnefahöggi. Maðurinn er vistaður í fangageymslum lögreglu. 

Seint í gærkvöldi var kona stöðvuð í akstri af lögreglumönnum í Grafarvoginum. Konan var svipt ökuréttindum við aksturinn, vegna eldra brots. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að málið hafi verið klárað á vettvangi með vettvangsskýrslu. Eftir skýrslutöku fékk konan að fara sína leið á tveimur jafnfljótum.

Klukkan 17:13 stöðvaði lögreglan ökumann í Árbænum og var hann handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn var án ökuréttinda en hann hafði verið sviptur þeim vegna eldra máls. Ætluð fíkniefni fundust á manninum. Maðurinn var látinn laus eftir sýna- og skýrslutöku á lögreglustöð.

Klukkan 17:20 var kona stöðvuð í akstri á bifreið af lögreglumönnum í miðborginni. Konan var handtekin, grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hún var einnig með útrunnin ökuréttindi. Konan var færð á lögreglustöð og var laus eftir sýna- og skýrslutöku.

Klukkan 19:25 var maður handtekinn vegna ölvunarástands og óspekta í strætisvagni í miðborginni. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð og færður til vistunar þangað til ástand hans lagast.

Klukkan 19:56 var maður stöðvaður í akstri á bifreið af lögreglumönnum í Austurbænum (hverfi 108). Maðurinn var handtekinn, grunaður um ölvun við akstur. Hann var fluttur á lögreglustöð og var laus eftir sýnatöku.

Klukkan 20:31 stöðvaði lögreglan ökumann í Árbænum sem var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og lyfja. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð og var laus eftir sýnatökur.

Klukkan 21:54 var annar ökumaður stöðvaður í sama hverfi grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð og var laus eftir sýnatökur.

Klukkan 22:09 var maður staðinn að þjófnaði í verslun í hverfi 101. Málið var klárað á vettvangi með skýrslutöku af manninum.

Klukkan 00:40 var maður stöðvaður í akstri á bifreið af lögreglumönnum í Austurbænum (hverfi 108). Maðurinn var handtekinn, grunaður um ölvun við akstur og akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð og látinn laus eftir sýnatökur.

Aðeins tveimur mínútum síðar eða klukkan 00:42 var annar ökumaður stöðvaður í sama hverfi. Maðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn er án ökuréttinda vegna eldra brots. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð og var laus eftir sýna- og skýrslutöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert