Hjólhýsin allsráðandi á Húsavík

Tjaldstæðið á Húsavík var vel nýtt í gærkvöldi.
Tjaldstæðið á Húsavík var vel nýtt í gærkvöldi. mbl.is/Hafþór

Hvítasunnuhelgin, fyrsta stóra ferðahelgi ársins, er hafin og leiðin liggur norður í land. Þar er enda góða veðrið að finna, en spáð er allt að 18 gráða hita norðaustanlands. 

Á Húsavík var þétt lagt á tjaldstæðinu í nótt. Lítið var reyndar um tjöld á svæðinu, en hjólhýsin og tjaldvagnar allsráðandi. Hafþór Hreiðarsson, tíðindamaður mbl.is í bænum, segir að góð stemning sé í bænum og mikið líf, bæði á tjaldstæðinu og hótelum bæjarins. 

„Það er smá vindur, en sólin lætur sjá sig svo þetta lítur bara vel út,“ segir Hafþór. Helgin sé sennilega sú stærsta hingað til, en þó hafi margir verið í bænum um síðustu helgi. 

Að sögn lögreglunnar á Akureyri var nóttin þó róleg fyrir norðan, og ekki að sjá að ferðamannastraumnum hafi fylgt nein vandræði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert