Játaði að hafa selt hlaupbangsana

Lögreglan segist hafa gert húsleit hjá manninum eftir að hafa …
Lögreglan segist hafa gert húsleit hjá manninum eftir að hafa fengið heimild. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gær íslenskan karlmann á fimmtugsaldri vegna gruns um að hann hefði selt hlaupbangsa sem innihéldu fíkniefni. Maðurinn játaði sök, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Lögreglan greindi í síðasta mánuði frá því að tvær unglingsstúlkur hefðu veikst hastarlega eftir að hafa borðað hlaupbangsa sem munu hafa innihaldið kannabisefni og morfín.

„Hið meinta sælgæti höfðu þær þegið af ungum manni sem hafði keypt það af eldri manni,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Tól og tæki til framleiðslu hafi fundist

Hún segist hafa gert húsleit hjá manninum og handtekið hann í gær, eftir að hafa fengið heimild. 

„Þar fundust tól og tæki til fíkniefnaframleiðslu, þar á meðal á hlaupböngsum. Maðurinn játaði að hafa framleitt fíkniefni og selt þau um skeið. Hann hefur ekki komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnamála. Rannsókn málsins er á lokastigi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert