Hvað með veiruvottorð fyrir Íslendinga erlendis?

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir varð þjóðþekktur á Íslandi á útmánuðum eftir …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir varð þjóðþekktur á Íslandi á útmánuðum eftir að kórónufaraldurinn braust út upp úr áramótum. Hann féllst á að svara nokkrum spurningum mbl.is um kröfur til vottorða þeirra sem hyggjast heimsækja Ísland í sumar. Formlegar reglur þar að lútandi hafa þó ekki verið gefnar út. Ljósmynd/Lögreglan

„Við erum enn þá að vinna í þessum reglum með vottorðin, þetta er ekki alveg komið á hreint,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is, inntur eftir því hvaða skilyrði kórónuveiruvottorð Íslandsferðalanga næstu mánaða þurfi að uppfylla.

„Við höfum verið að tala um það að vottorð verði tekin gild fyrir einstaklinga sem hafa fengið staðfesta Covid-sýkingu með þessu svokallaða PCR-prófi, við munum ekki taka mótefnamælingar gildar, þær eru ekki allar áreiðanlegar og við vitum ekki alltaf hvaða próf eru notuð svo það er dálítið snúnara,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði PCR-próf, sem tekin hafi verið innan fjögurra sólarhringa áður en vottorði er framvísað, hugsanlega einnig verða tekin gild á Íslandi í sumar, sóttvarnalæknir hafi þegar lagt tillögur fyrir heilbrigðisráðherra þar að lútandi sem hafi hlotið samþykki.

„Þetta er það sem liggur fyrir núna þótt ég geti ekki lofað að það verði endanleg niðurstaða. Fólk mun líkast til geta aflað þessara vottorða hjá heimilslæknum sínum og öllum viðurkenndum sjúkrastofnunum og að líkindum frá öllum löndum sem fólk er að koma frá til Íslands. Þetta er þó ekki endanlega ákveðið en ég tel líklegt að þetta verði lendingin,“ sagði sóttvarnalæknirinn og þar með hafa Íslendingar erlendis þær upplýsingar, kjósi þeir að framvísa vottorði frekar en að gangast undir kórónuveirupróf á íslenskum landamærastöðvum við komu til landsins eftir 15. júní.

Sérstakur og annasamur tími

Að vottorðamálum afgreiddum er freistandi að spyrja sóttvarnalækninn hvaða áhrif síðustu fjórir mánuðir hafi haft á líf hans, embætti hans er ekki í kastljósinu dags daglega en frá því í febrúar hafa Þórólfur Guðnason, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Alma Möller landlæknir orðið landsþekkt á Íslandi sem hin nýja heilaga þrenning. Hvað sýnist sóttvarnalækni um þetta?

„Þetta hefur verið mjög sérstakur og annasamur tími,“ játaði Þórólfur, „frídagarnir hafa ekki verið margir og maður hefur bara unnið frá morgni til kvölds en ég hef notið góðs stuðnings frá minni fjölskyldu, þetta hefur svo sem ekki haft nein sérstök áhrif á mig þannig séð en maður þarf bara að fara að komast í það að sinna einhverju öðru en þessu, ýmislegt annað hefur auðvitað setið á hakanum bæði í tilhugalífinu og vinnunni,“ sagði Þórólfur og hló við.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur sóttvarnalæknir slá á létta strengi …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur sóttvarnalæknir slá á létta strengi á blaðamannafundi 13. maí, ef til vill hefur íslensk þjóðarsál aldrei haft meiri þörf fyrir gamansemi en einmitt síðustu fjóra mánuði. Ljósmynd/Lögreglan

Getur maður í stöðu sóttvarnalæknis á Covid-tímum þá tekið sér sumarfrí?

„Já, ég vona það nú, maður þarf nú að geta tekið sér sumarfrí en það fer nú bara eftir því hvernig málin þróast,“ svaraði læknirinn.

Hvað sýnist honum þá um opnun Norðurlandanna sem rætt er um að verði 15. júní og er þá átt við frjálsa för borgara landanna þar á milli?

„Það er ómögulegt að segja og fer bara eftir hve mikið verður opnað á milli, Svíarnir munu til dæmis sitja eitthvað eftir, við [Íslendingar] ætlum að reyna að opna en við verðum auðvitað að fara varlega í því, hér hefur farsóttin auðvitað gengið töluvert niður, við erum ekki með neinn einstakling á sjúkrahúsi núna [vegna kórónuveirunnar] og við reynum auðvitað að lágmarka áhættuna með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til.“

Spænska veikin alvarleg farsótt

Hvernig lítur Þórólfur þá á kórónuveiruna í samanburði við frægar drepsóttir síðustu 100 ára, svo sem spænsku veikina og aðrar sóttir sem ógnað hafa lífi Evrópubúa?

„HABL, eða SARS-faraldurinn 2002, náði náttúrulega aldrei hingað, hann náði til ýmissa landa í Evrópu en við fengum svo sem aldrei beint að kynnast honum hér, en spænska veikin var auðvitað gríðarlega alvarleg farsótt sem reyndar var einkum bundin við suðvesturhornið, menn náðu að stöðva hana með samgöngubanni,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði kórónuveiruna þó hafa verið allt annars eðlis. „Sjáðu bara hversu hratt faraldurinn byrjaði, það komu svo margir inn frá sýktum svæðum, til dæmis í Ölpunum, á sama tíma. En hér var líka gripið til aðgerða strax frá fyrsta degi svo við náðum fljótt að kveða þetta niður hér á Íslandi,“ sagði sóttvarnalæknirinn.

Hvað gerðu Svíar rangt?

Hvað með Svía, hvers vegna eru yfir fjögur þúsund manns látnir þar á bæ?

„Þeir hafa bara lent verr í því og ég get ekkert sagt af hverju það er, mismunandi aðferðum var bara beitt á Norðurlöndunum, það sem við hér á Íslandi gerðum á fyrsta degi var að við ákváðum að vera mjög aggressív í að prófa fólk fyrir veirunni, við prófuðum miklu meira en öll Skandinavíulöndin og við fórum líka beint í smitrakningu auk þess sem við settum fólk sem var að koma frá Ölpunum beint í sóttkví sem hin Norðurlöndin gerðu ekki,“ sagði Þórólfur ómyrkur í máli.

Upplýsingafundur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra 24. apríl, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason …
Upplýsingafundur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra 24. apríl, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir. Winston Churchill sagði eftir orrustuna um Bretland sumarið og haustið 1940 að aldrei hefðu svo margir átt svo fáum svo mikið að þakka. Gildir það ef til vill um sóttvarnaþríeykið íslenska? Ljósmynd/Lögreglan

„Sýkingarnar hjá Svíum fóru mjög fljótt inn á hjúkrunarheimilin, eldri borgarar hjá þeim fóru snemma mjög illa út úr þessu,“ sagði Þórólfur þegar blaðamaður innti hann enn frekar eftir útbreiðslu veirunnar í Svíþjóð.

„Þú sérð bara hvað var gert hérna á Íslandi, við lokuðum bara hjúkrunarheimilum, leyfðum engar heimsóknir og settum starfsfólki mjög stífar reglur, við stoppuðum þetta bara strax, okkur tókst að halda sýkingum frá hjúkrunarheimilum sem mér sýnist að þeim hafi ekki tekist í Svíþjóð. Svíar voru samt með ýmsar takmarkanir en það er eins og fólk hafi bara ekki farið eftir þeim en það er reyndar mjög erfitt fyrir mig að vera að dæma eitthvað um það svo ég ætla ekki að gera það,“ sagði sóttvarnalæknirinn íslenski.

Áhugamaður um bólusetningar

Eiginkona Þórólfs, Sara Hafsteinsdóttir, á afmæli í dag og þau hjónin voru á leið út að gera sér dagamun þegar viðtalið var tekið, lái þeim hver sem vill eftir þá vinnutörn sem Þórólfur á að baki og hefur væntanlega bitnað á fjölskyldunni líka. Blaðamaður grátbiður þó um eina lokaspurningu. Hvernig lá leið Þórólfs í sóttvarnalækningar?

Þórólfur brást vel við sem endranær.

„Ég er að upplagi almennur læknir og barnalæknir og smitsjúkdómalæknir og hafði alltaf mikinn áhuga á bólusetningum og var ráðinn inn til þáverandi sóttvarnalæknis, Haraldar Briem, það hefur verið 2002. Svo lauk ég doktorsprófi í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands 2013 og þetta hefur hefur alltaf verið ákveðið áhugamál hjá mér, fyrirbyggjandi lækningar, og svo vann ég lengi sem smitsjúkdómalæknir á Barnaspítala Hringsins eftir að ég kom heim úr sérnámi frá Ameríku,“ sagði þessi nýja þjóðarhetja Íslendinga í Covid-fárinu áður en blaðamaður gaf þeim Söru frið frá spurningavaðlinum til að fara út að borða á afmælisdegi hennar.

mbl.is