Gul viðvörun í gildi

Svona var ástandið á Mývatnsöræfum um sex í morgun.
Svona var ástandið á Mývatnsöræfum um sex í morgun. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Gul viðvörun er í gildi á Austurlandi og á Suðausturlandi og Veðurstofan varar við slæmum akstursskilyrðum. Fréttaritari mbl.is sem var á ferðinni á Mývatnsöræfum um sex leytið segir að ekki sé auðvelt að vera á sumardekkjum þessa stundina þar. 

„Kalt í veðri norðan- og austanlands með slydduéljum en éljum á fjallvegum. Akstursskilyrði geta orðið varasöm, og eru vegfarendur hvattir til að sýna aðgát. Búast má við hvössum vindhviðum við fjöll suðaustan til á landinu sem geta verið varhugaverðar ökutækjum sem taka á sig mikinn vind,“ segir í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands en gul viðvörun hefur verið í gildi frá því klukkan 4 á Austfjörðum og Suðausturlandi. Viðvörunin gildir til klukkan 20 í kvöld.

 „Norðvestan hvassviðri, 15 - 20 m/s, einkum sunnan til á svæðinu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll staðbundið yfir 25 m/s, sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát.“

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að það hafi verið kalt á landinu í nótt og gránaði víða í fjöll.

„Búast má við áframhaldandi kuldatíð með stífri norðanátt á landinu í dag, hvassast austan til á landinu með varhugaverðum vindstrengjum undir Vatnajökli. Slydduél um landið norðaustanvert, en snjóél til fjalla á þeim slóðum og hiti 1 til 6 stig. Léttskýjað að mestu sunnan- og vestan til á landinu í dag og hiti að 12 stigum. Dregur úr vindi og éljum í kvöld og nótt. Fremur bjart veður víða á landinu á morgun og hlýnar lítið eitt, en skýjað og yfirleitt þurrt norðaustan til fram eftir degi. Veðrið skiptir síðan um gír á sunnudag og snýst í milda sunnanátt með vætu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. 

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðlæg átt 8-13 m/s, en 10-18 austantil á landinu og hvassir vindstrengir við fjöll suðaustan til. Skúrir eða slydduél norðan- og austanlands, en léttskýjað sunnan- og vestan til, Hiti 1 til 8 stig, en hiti að 12 stigum sunnan til yfir daginn.

Á laugardag:

Norðlæg og síðar vestlæg átt 5-10 m/s. Bjartviðri sunnan- og vestanlands, en skýjað norðaustan til á landinu fram á kvöld. Hiti 1 til 12 stig, hlýjast sunnanlands.

Á sunnudag (sjómannadagurinn):
Hægt vaxandi suðlæg átt. Bjart með köflum norðaustan til, en þykknar upp með rigningu sunnan- og vestanlands. Hiti 7 til 14 stig.

Á mánudag:
Suðlæg átt 8-15 og rigning, en þurrt norðaustan til fram yfir hádegi. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast norðaustan til.

Á þriðjudag:
Breytileg átt og rigning með köflum eða skúrir og milt í veðri.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir suðlæga átt með rigningu sunnan- og vestanlands, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti breytist lítið.

mbl.is