Mesti samdráttur frá upphafi mælinga

Þetta hefur verið sjaldgæf sjón í ár.
Þetta hefur verið sjaldgæf sjón í ár. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aldrei hefur mælst jafn mikill samdráttur á umferð um hringveginn og það sem af er ári. Á  Mýrdalssandi dróst umferðin saman um nærri 70 prósent í maí.

„Umferðin á hringveginum í maí dróst saman um ríflega 10 prósent sem er gríðarlegur samdráttur. Enn meiri samdráttur er frá áramótum en umferðin fyrstu fimm mánuði ársins er 15,5 prósentum minni en í sömu mánuðum í fyrra og hefur aldrei áður mælst jafn mikill samdráttur á þessum árstíma,“ segir á vef Vegagerðarinnar í dag.

Umferðin, yfir 16 lykilteljara á hringvegi, dróst saman um 10,3% í maí sl. miðað við sama mánuð á síðasta ári. Leita þarf aftur til ársins 2016 til að finna minni umferð í maí.

Umferðin dregst saman á öllum landssvæðum en mest á Austurlandi eða um tæp 40% en minnst á talningastöðum á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 3%.

Af einstaka stöðum er mestur samdráttur á Mýrdalssandi eða tæplega 69% en minnstur um mælisnið á Hringvegi við Úlfarsfell eða 2%.

Mest hefur umferð dregist saman á Austurlandi eða um tæp 40% en minnst við höfuðborgarsvæðið eða um rúmlega 8%.

Eins og geta má nærri hefur umferð dregist saman í öllum vikudögum en hlutfallslega mest á sunnudögum eða um tæp 24% en minnst á þriðjudögum eða um rúmlega 13% að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

„Hegði umferðin sér líkt og í venjubundnu ári, milli mánaða, gæti hún dregist saman um 15 -20% nú í ár, á hringvegi.  En mikil óvissa er í þessari spá þar sem þrír helstu sumarmánuðirnir eru fram undan, þar sem gjarnan er mest keyrt á hringvegi. Ef sumarið verður mun meira ferðasumar en venjulega þá gæti samdráttur orðið minni,“ segir á vef Vegagerðarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert