Margra ára undirbúningur að baki 100 km hlaupi

Hlíf Brynja Baldursdóttir kemur í mark fyrst kvenna.
Hlíf Brynja Baldursdóttir kemur í mark fyrst kvenna. Ljósmynd/Aðsend

Hlíf Brynja Baldursdóttir kom fyrst kvenna í mark í Hengill Ultra-hlaupinu sem haldið var í nótt. Hlaupið er 100 kílómetra langt utanvegarhlaup, það lengsta á Íslandi, en Hlíf kom í mark á tímanum 15 klukkustundir, 57 mínútur og 8 sekúndur.

Hengill Ultra var haldið í níunda sinn en hlaupið er hluti af mótaröðinni Víkingar, sem haldið er í samvinnu við UMFÍ. Ræst var klukkan tíu í gærkvöldi og hlaupið inn í nóttina. „Það var kalt í nótt, en svo kom sólin upp og veðrið alveg yndislegt þótt hitinn hafi verið alveg við frostmark,“ segir Hlíf.

Hún segir að margra ára undirbúningur sé að baki. „Maður þarf að búa sig undir þetta í mörg ár en ég hef verið að hlaupa frá því ég var stelpa,“ segir Hlíf sem hefur síðustu ár verið í náttúruhlaupum undir forystu Elísabetar Margeirsdóttur. „Svo kom ég líka inn í FH-hópinn hjá Friðleifi Friðleifssyni, en þau eru ferlega flottir hlauparar.“ Hlíf æfir að jafnaði 3-4 sinnum í viku en hvílist þess á milli.

Vegalengdin er sú lengsta sem Hlíf hefur lagt að baki, en hún hefur einu sinni hlaupið 87 kílómetra, og fjórum sinnum hlaupið Laugveginn en það hlaup er 55 kílómetrar. Að mörgu er að huga fyrir hlaupið, en til dæmis sé nauðsynlegt að hvíla alveg í nokkra daga fyrir hlaup. Þegar í hlaupið er komið er mikilvægast að halda eins jöfnum hraða og maður getur, segir Hlíf en bætir við að það geti verið erfitt að halda aftur af sér í upphafi hlaups. 

„Þetta er líka spurning um hugarfar. Maður þarf að mæta bjartsýnn og jákvæður og hugsa vel til allra sem maður þekkir,“ segir Hlíf sem kom í mark rétt fyrir klukkan tvö í dag. Næstu daga fær hún verðskuldaða hvíld en hún segist stefna að því að hreyfa sig eins lítið og mögulegt er á næstunni. 

mbl.is