Segja stöðuna „grafalvarlega“

Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Krabbameinsfélag Íslands óttast að skimanir fyrir brjóstakrabbamein falli niður í fjóra mánuði hið minnsta frá og með næstu áramótum en Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri eiga að taka við verkinu frá áramótum.

Í ályktun aðalfundar Krabbameinsfélags Íslands segir að staða brjóstaskimana sé grafalvarleg.

Spítalinn hefur óskað eftir fresti til 1. maí til að hefja skimanir. Samningur Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið um skimanir rennur út um áramót og ekki liggur fyrir hver muni sinna skimununum þar til Landspítali er tilbúinn til að taka við verkefninu.

Ef skimanir fyrir brjóstakrabbameinum falla niður í fjóra mánuði má gera ráð fyrir að greining og meðferð sjúkdómsins dragist úr hófi fram fyrir tugi kvenna,“ segir í ályktuninni.

Bent er á að brjóstakrabbamein er langalgengasta krabbamein kvenna en árlega greinast að meðaltali 220 konur með sjúkdóminn hér á landi. 

Meðalaldur kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein er 63 ár. Batahorfur eru mjög góðar hér á landi, sérstaklega ef sjúkdómurinn greinist snemma. Um 90% kvenna eru á lífi eftir 5 ár og um 80% geta vænst þess að vera á lífi eftir 10 ár. Að meðaltali deyja 49 konur á ári úr sjúkdómnum,“ segir í ályktuninni.

Árangur í skimun varðandi brjóstakrabbamein hafi verið með ágætum en hvergi megi slaka á og staðan sem blasi við sé fullkomlega óásættanleg. 

mbl.is