Menntasjóður samþykktur á Alþingi

Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur um Menntasjóðs námsmanna var samþykkt á Alþingi …
Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur um Menntasjóðs námsmanna var samþykkt á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um Menntasjóð námsmanna var samþykkt af meirihluta Alþingis í dag. Menntasjóður námsmanna tekur þá við af LÍN frá og með 1. júlí 2020, þegar lögin taka gildi. 

„Ferli þessarar kerfisbreytingar hefur verið langt, en með elju og dugnaði er Menntasjóður námsmanna orðinn að veruleika. Hann er bylting fyrir fjölbreyttan hóp háskólanema og fjölskyldur þeirra,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í Facebook-færslu í tilefni þessa.

Ábyrgðarmannafyrirkomulag LÍN verður afnumið og ábyrgðir á námslánum falla niður að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er veitt heimild til afsláttar til lánþega við uppgreiðslu eða innborgun námslána.

Hlutfall þess afsláttar ræðst af eftirstöðvum námsláns en skal þó ekki vera lægra en 5% og ekki hærra en 15%. Endurgreiðsluhlutfall af eldri námslánum verður lækkað, hlutfallið 3,75% í 3,4% eða 4,75% í 4,4%, að því er segir í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Námsstyrkur og stuðningur við foreldra 

Með tilkomu Menntasjóðs munu lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns þeirra ásamt verðbótum, að loknu námi. 

Einnig felur sjóðurinn í sér aukin réttindi fyrir barnsforeldra en sjóðurinn veitir beinan stuðning vegna framfærslu barna lánþega í stað lána og til hans teljast meðlagsgreiðslur. Þá verður námsaðstoð ríkisins undanþegin lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þá verður ábyrgðarfyrirkomulag LÍN afnumið og ábyrgðir af námslánum niðurfallnar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Heimild verður veitt til afsláttar lánþega við uppgreiðslu eða innborgun námslána. Hlutfall þess afsláttar ræðst af eftirstöðvum námsláns en skal þó ekki verða lægra en 5% og ekki hærra en 15%. Endurgreiðsluhlutfall af eldri námslánum verður lækkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert