Segir sjálfstæðismenn færa sig æ meira nær einræði

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hari

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar fullyrðir að Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra hafi viðhaft faglegt meinsæri, svokallað berufsverbot, gagnvart Þorvaldi Gylfasyni þegar ráðuneyti hans andmælti því að Þorvaldur yrði ráðinn ritstjóri ritsins Nordic Economic Policy Review. 

Þetta skrifar Helga Vala á Facebook-síðu sína og vísar til þeirra orða sem Bjarni skrifaði fyrr í dag á sína Facebook-síðu um málið.

Ekki gefið út til að styðja við stefnumótun

Bendir hún á að Bjarni „minnist ekki orði á þá undrun sem barst út meðal fulltrúa annarra ríkja þegar fjármálaráðuneytið íslenska greip inn í ráðninguna með þessum hætti“, meðal annars.

Þá segir hún „valdníðslu“ sjálfstæðismanna koma sér „ekkert á óvart“.

Bjarni sagðist í færslu sinni telja „að sýn og áhersl­ur Þor­vald­ar Gylfa­son­ar í efna­hags­mál­um geti eng­an veg­inn stutt við stefnu­mót­un ráðuneyt­is sem ég stýri“.

Helga Vala hefur þetta að segja um þau orð:

„Þetta fræðirit er ekki gefið út til að styðja við stefnumótun fjármálaráðuneytisins á Íslandi heldur fagrit til upplýsinga - óháð stjórnmálaflokkum og þeirra afskiptum. Ég átta mig á því að það er þér og ykkur í sjálfstæðisflokknum framandi, en það tíðkast víða um heim að óháð fagrit séu gefin út, ekki til að þóknast hagsmunaöflum heldur til faglegrar upplýsingar.“

Valdníðsla, sýndarsamráð og ofsaköst

Þá segir hún það vandasamt að fara með vald.

„Það fer ykkur afskaplega illa og ég er ekki frá því að eftir því sem líður á kjörtímabilið séuð þið æ meira að færa ykkur nær einræði en lýðræði með valdníðslu, sýndarsamráði og ofsaköstum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert