Lundi langt inni í landi

Lundinn var kominn eina 20 km frá sjó.
Lundinn var kominn eina 20 km frá sjó. Ljósmynd/ÞKB

Lundar eru vanir að halda sig við sjó og hætta sér sjaldan langt inn í land. Lundinn á myndinni sást í gær skammt frá Langholti í Flóahreppi, um 20 km frá sjó. Fuglinn hörfaði inn í runnaþykkni þegar til hans sást og reyndi að fela sig þar, en þó mátti sjá í skrautlegan gogginn þegar vel var að gáð.

Lundinn er bjargfugl og ver stórum hluta ársins á hafi úti. Hann hefur minna að sækja inn í land og er ákaflega sjaldséður á þeim slóðum, sem fuglinn sást í gær. Langholt er eina tíu km norðaustur af Selfossi. Hafi fuglinn verið kominn frá Vestmannaeyjum hefur hann því lagt nokkuð langa leið að baki.

Þó má hafa í huga að lundinn er hraðfleygur þótt vænghafið sé lítið og getur náð allt að 80 km hraða. Lundanum var færður biti af túnfiski, sem hann nartaði í. Þegar lundans var vitjað skömmu síðar var hann á bak og burt. Vonandi hefur honum reitt vel af. 

mbl.is