Konur 71% af umsækjendum í læknanám

60 af 314 fá inni í læknisfræði í haust. 225 …
60 af 314 fá inni í læknisfræði í haust. 225 þeirra 314 sem greiddu prófgjaldið voru konur.

Konur voru í miklum meirihluta í hópi þeirra sem tóku inntökupróf við læknadeild Háskóla Íslands þetta vorið. Samtals voru 314 sem greiddu prófgjaldið en 225 þeirra voru konur.

Það gerir hlutfall kvenna um 71%, en karlar sem sóttu um voru 89. Ekki er öruggt að nákvæmlega þessi fjöldi fólks hafi síðan tekið þátt, þótt líklegt sé að á milli þeirra sem greiddu gjaldið og tóku endanlega prófið sé nokkuð samræmi.

Nokkuð hefur kvarnast úr hópnum sem var upphaflega skráður til leiks en hann taldi um 344. Það er þó metfjöldi í skráningu.

Kynjahlutföll voru öllu jafnari í inntökuprófum í sjúkraþjálfun, þar sem 52 karlar og 47 konur tóku þátt. Þessar upplýsingar fengust úr svari háskólans við fyrirspurn mbl.is.

Þessi próf fóru fram fyrir helgi og niðurstaðna er að vænta eftir nokkrar vikur. 60 verða teknir inn í læknisfræði og 35 í sjúkraþjálfunarfræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert