Farþegi í einkaflugvél greindist með veiruna

Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli. Myndin er úr safni.
Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli. Myndin er úr safni. mbl.is/Golli

Eitt af þeim fjórum sýnum sem hafa reynst jákvæð síðan skimun á landamærum hófst fimmtánda júní var tekið af farþega sem hafði komið með einkaflugvél á Reykjavíkurflugvöll. 

Að sögn Kjartans Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns landlæknis, var sýnið tekið 15. júní og fékkst niðurstaða úr því daginn eftir. Til stóð að farþeginn færi í mótefnamælingu.

Hin þrjú sýnin sem hafa reynst jákvæð voru tekin á Keflavíkurflugvelli. Á meðal þeirra var Íslendingur sem var að koma frá Lundúnum og erlendur ferðamaður sem kom með flugi frá Amsterdam.

Kjartan Hreinn gat ekki veitt upplýsingar um hvaðan farþeginn sem lenti á Reykjavíkurflugvelli kom eða hvers lenskur hann er.

Á þriðjudaginn var skimað fyrir kórónuveirunni hjá um 80 farþegum sem komu til Seyðisfjarðar með Norrænu og segir Kjartan Hreinn að ekkert jákvætt tilfelli hafi komið upp þar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert