Ungmenni sýna fleiri einkenni þunglyndis

Samfélagsmiðlanotkun hefur verið meiri hjá stúlkum en drengjum.
Samfélagsmiðlanotkun hefur verið meiri hjá stúlkum en drengjum. AFP

Stúlkur á aldrinum 10 til 20 ára eru almennt með fleiri einkenni þunglyndis heldur en drengir á sama aldri. Árið 2020 voru stúlkur að meðaltali með 10,7 einkenni þunglyndis miðað við 9,3 fyrir ári en drengir með 6,2 einkenni í ár miðað við 5,7 árið 2019.  

„Síðustu átta árin hefur sá hópur ungmenna sem er með mikil einkenni kvíða og þunglyndis farið stækkandi út frá þessum mælingum, sem byggðar eru á sjálfsmati ungmenna,“ segir Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent við sálfræðideild HR og sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu. Hún fjallaði um niðurstöðurnar í fyrirlestrarröðinni Lykiltölur í lífi barna hjá Rannsóknum og greiningu í gær.

Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, forseti sálfræðideildar HR.
Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, forseti sálfræðideildar HR. Ljósmynd/HR

Telja erfiðara að ræða persónuleg málefni

Samfélagsmiðlanotkun er meiri hjá stúlkum samkvæmt rannsókninni þar sem 47% stúlkna verja þremur eða fleiri klukkustundum á dag á samskiptamiðlum en einungis 26% drengja. Þá finnst stúlkum erfiðara nú en áður að ræða persónuleg málefni við vini sína heldur en drengjum. 51% stúlkna taldi slíkt mjög auðvelt en árið 2009 var hlutfallið 68%. 

32% drengja töldu auðvelt mjög auðvelt að fá umræður um persónuleg málefni frá vinum, miðað við 31% í fyrra en hlutfallið var nokkuð hærra árið 2014 þegar 38% drengja töldu auðvelt að fá slíkar umræður. 

Bryndís segir að rannsóknir sýni að konur séu líklegri til að sækja í andlegan stuðning frá vinum en karlmenn noti önnur bjargráð.

„Þetta er mikilvægt bjargráð hjá konum. Þess vegna er ekki ólíklegt að það sé erfiðara að sækja beinan félagslegan stuðning með því að tala um persónuleg málefni við traustan vin. Það getur verið einn af mörgum þáttum sem spila inn í þetta. Þetta er samfélagsbreyting,“ sagði Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert