Vísar fólki frá ef það er ekki með SMS

Fernando's Restaurant er í miðbæ Keflavíkur. Vinsæll upphafspunktur á ferðalagi …
Fernando's Restaurant er í miðbæ Keflavíkur. Vinsæll upphafspunktur á ferðalagi fólks til Íslands. Ljósmynd/Trip Advisor

Francisco Laines hefur stundað það frá því skimun ferðamanna hófst á landamærum Íslands að biðja ferðamenn um að sýna fram á að þeir séu ósmitaðir af kórónuveirunni þegar þeir sækja veitingastað hans heim. 

Francisco rekur veitingastaðinn Fernando’s Restaurant ásamt eiginkonu sinni Claudiu í miðbæ Keflavíkur. Hann segir ánægju ríkja með kerfið hjá sér.

„Það er erfitt að vísa viðskiptavinum frá en það verður að vera leið til þess að verja landið. Við gerum þetta til þess að verja viðskiptavini okkar og starfsfólkið. Fólk hefur hingað til haft mikinn skilning á þessu,“ segir Francisco.

„Þetta er gott fyrir alla.“

Francisco segist renna blóðið til skyldunnar að gæta þess að smit berist ekki frá ferðamönnum og til fólks sem er búsett hér. „Við lítum svo á að við verðum að gera þetta. Ef aðrir veitingastaðir reyndu að gera það sama væri það mögulega líka gott. Á endanum er þetta allt landið sem við erum að reyna að vernda og margt smátt gerir eitt stórt. Og stórt er gott fyrir landið,“ segir Francisco.

Vísað frá þegar þau voru nýkomin af flugvellinum

Íbúi í Keflavík lofaði framtak Francisco á Facebook-hópi Keflvíkinga um helgina: „Það komu gestir (túristar) þangað inn í kvöld á meðan við vorum þar og þau voru spurð og beðin um að framvísa niðurstöðum úr covid-prófi sem þau voru ekki búin að fá. Útskýrt var fyrir gestunum á kurteisan hátt að þau mættu ekki vera innan um annað fólk og ættu að halda sig á hótelinu þangað til niðurstöður úr prófinu liggja fyrir og í framhaldi var þeim vísað til dyra en jafnframt boðin velkomin eftir að þau hefðu fengið sínar niðurstöður.“

Francisco útskýrir að fólk komi inn í anddyri áður en haldið er inn í veitingasal. Þar er fólk spurt hvort það geti sýnt skeytið frá sóttvarnateyminu á flugvellinum sem sýni að það hafi greinst covid-laust. Ef fólk getur það ekki er það beðið að koma seinna.

Fernando lýsir tilvikinu að ofan: „Fólkið kom og sagðist nýkomið af flugvellinum. Það hafði verið í sýnatöku fyrir hálftíma síðan en sagðist ekki vera komið með niðurstöðurnar. Ég sagði þeim að því miður þyrftu þau að bíða þar til niðurstöðurnar væru komnar og þau höfðu fullan skilning á því. Síðan var greinilega einhver sem sat hjá, fylgdist með og deildi þessu á Facebook.“

mbl.is