Enn ósamið um þinglok

Úr þingsal.
Úr þingsal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki náðist að semja um þinglok í kvöld. Samkvæmt heimildum mbl.is virtist sem góður gangur væri í viðræðum framan af, en að snurða hafi hlaupið á þráðinn undir lokin. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir hins vegar að kröfur flokksins hafi verið óbreyttar frá upphafi, og hefðu því ekki átt að koma á óvart.

„Þetta er snúin staða, það þokast áfram á einum vígstöðvum en fer aftur á öðrum,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins um stöðu mála. „Það flækir málin að frá sjónarhóli ríkisstjórnarflokkanna er eins og verið sé að semja við nokkra ólíka stjórnarandstöðuflokka með mjög ólík mál á oddinum og ólíkar áherslur,“ segir Birgir.

Boltinn hjá ríkisstjórninni 

„Það eru að okkar mati allar forsendur til að ná bærilegri sátt um þau mál sem við í Miðflokknum höfum sett í forgang,“ segir Bergþór Ólason, varaformaður þingflokks Miðflokksins. Hann segir hins vegar að boltinn sé nú hjá ríkisstjórninni.

Miðflokkurinn hefur nálgast ríkisstjórnina í viðræðum um þinglok. Frá vinstri: …
Miðflokkurinn hefur nálgast ríkisstjórnina í viðræðum um þinglok. Frá vinstri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og Bergþór Ólason, varaformaður þingflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann gerir ráð fyrir að þráðurinn verði tekinn upp í viðræðum á morgun áður en þingfundur hefst á svipuðum nótum og þeim lauk í kvöld. „En það er ekkert búið fyrr en það er búið“. 

Samkeppnislög og samgöngumál meðal þess sem þarf að ræða

Samkvæmt heimildum mbl.is voru stjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn farnir að nálgast niðurstöðu, er sneru einkum að breytingum á frumvarpi um opinber hlutafélög um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, en þingmenn Miðflokksins hafa verið áberandi í umræðum síðustu daga um þau mál. 

Þá hafi hinir stjórnarandstöðuflokkarnir látið í sér heyra um að meira yrði gert til að koma til móts við sjónarmið þeirra í málum er sneru til dæmis að frumvarpi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um samkeppnislög, sendiherrafrumvarpi utanríkisráðherra og einnig frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

Kröfurnar hefðu ekki átt að koma á óvart

„Það eru enn deilur um ákveðin mál,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar í samtali við mbl.is um þinglokin. Hún segir að Samfylkingin hafi lagt áherslu á að fyrirhuguðum breytingum á samkeppnislögum yrði frestað, eða í það minnsta að nokkrar breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu eins og það liggur fyrir nú, en þær hugmyndir hafi fallið í grýttan jarðveg. 

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við teljum ekki rétt að breyta samkeppnislögum í því ástandi sem er uppi nú,“ segir Oddný, og vísar til þess að í greinargerð frumvarpsins sé vísað til uppgangs undanfarinna ára og aðstæðna í efnahagslífinu sem hafi gjörbreyst með tilkomu heimsfaraldursins. 

Hún ítrekar að þessar kröfur Samfylkingarinnar séu ekki nýtilkomnar. „Við höfum frá upphafi þess að farið var að ræða þinglok nefnt samkeppnislögin sem mál sem þyrfti að ræða, þannig að það á ekki að koma neinum á óvart.“

Þá þyki sumum í stjórnarandstöðuflokkunum það athyglisvert hversu langt stjórnin vilji ganga til móts við Miðflokkinn, sem hafi lagst í málþóf, á sama tíma og ekki sé hlustað á hina flokkana, sem jafnvel hafi lagst á árarnar með stjórninni í góðum málum. “Okkur er það þvert um geð, en ef það er eina leiðin til að komast að samkomulagi að stunda málþóf, þá verðum við að fara hana,“ segir Oddný að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina