Samkomulag um samgöngufrumvarp í augsýn

Mikið hefur verið um auða stóla í umræðum um samgöngumál …
Mikið hefur verið um auða stóla í umræðum um samgöngumál á þinginu. Nú hefur þeim verið frestað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkomulag hefur náðst milli þingflokksformanna á Alþingi um að fresta umræðum um tvö stór samgöngumál þar til búið er að ræða sjö önnur dagskrármál, á borð við frumvarp um almannatryggingar, aðgerðir gegn peningaþvætti og fleiri mál sem óumdeildari þykja.

Þingmenn Miðflokksins hafa síðustu daga varið drjúgum tíma í ræðuhöld um annað samgöngufrumvarpanna, frumvarp um stofnun hlutafélags um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt heimildum mbl.is felst í samkomulaginu að eftirlitsheimildir fjárlaganefndar Alþingis með fjárútlátum í samgönguverkefni á höfuðborgarsvæðinu eru auknar, í það minnsta að nafninu til. Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, vill ekkert tjá sig efnislega um innihald samkomulagsins annað en að fjárlaganefnd sé með breytingar á málinu til umræðu en slíkar breytingar yrðu háðar því að það takist að semja um þingmálaskrá í heild sinni.

Óvíst með innihald

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata í fjárlaganefnd, hefur ekki fengið að sjá tillögurnar en staðfestir að þær hafi með eftirlitshlutverk þingsins að gera. Hann vill þó ekki segja til um hvort þær breytingar sem Miðflokksmenn knýi á um séu þýðingarmiklar, en bætir við að Píratar hafi sjálfir komið til leiðar ýmsum breytingum í gagnsæisátt svo sem að opinbera hlutafélaginu, sem stefnt er að því að stofna utan um framkvæmdirnar, beri að láta vita þegar upp koma frávik frá kostnaðaráætlun eða þegar áætlun er breytt vegna breyttra forsendna. Slíkar kröfur séu sjálfsagðar og eigi að gilda um allar framkvæmdir, hvort heldur á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar.

Í samtali við mbl.is segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri-grænna, að henni skiljist sem verið sé að „skerpa á orðalagi“. Sú breyting hafi verið gerð í meðferðum fjárlaganefndar. Bjarkey segir sjálfsagt mál að gera slíkar breytingar þótt hún telji þær vart nauðsynlegar. „Við hefðum lifað með þessu án breytinganna,“ segir Bjarkey.

Aðrir stjórnarandstöðuflokkar hafi einnig fengið eitthvað fyrir sinn snúð, en Bjarkey segir að viðræður séu í gangi um efnislegar breytingar á frumvarpi til samkeppnislaga, en þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa farið hörðum orðum um og sagt veikja stöðu eftirlitsins.

Vegna samkomulagsins hefur umræðum um samgöngumál verið frestað en þingið hefur nú tekið til umræðu næsta dagskrármál, frumvarp um almannatryggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert