Vill fá álit lögreglunnar á borgarlínu

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, segist sakna þess að sjá ekki umsagnir lögreglu og slökkviliðs á frumvarpi um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þessar stofnanir eigi allt undir því að hægt sé að ferðast greiðlega um borgina með bílum og því væri eðlilegt að fá álit þeirra á framkvæmd borgarlínu, sem Ólafur segir að muni tefja ferð bíla um höfuðborgarsvæðið.

„Ég sakna líka álits leigubílstjóra, sem annast mjög mikilvæga þjónustu til dæmis við aldraða og öryrkja,“ sagði Ólafur og bætti við að hjúkrunarfræðingar þyrftu einnig að komast til og frá vinnu.

Fundur hófst á Alþingi klukkan 11 í morgun og skipa þingmenn Miðflokksins flest sæti á mælendaskrá. Koma þeir til skiptis upp í pontu til að lýsa efasemdum sínum með borgarlínu, sem þeir segja kostnaðarsama framkvæmd og óskýra, en fagna þó öðrum framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, benti á að ekkert í lagafrumvarpinu sem væri til umræðu sneri að rekstraráætlun borgarlínu og spurði þingmenn Miðflokksins hvort þeir gætu nefnt eitt atriði í frumvarpinu sem kvæði á um annað.

Samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við ríkið, er gert ráð fyrir samgönguframkvæmdum upp á 120 milljarða króna á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum, og koma 15 milljarðar úr sjóðum sveitarfélaganna og 45 milljarðar frá ríkinu en 60 milljarða á að fjármagna með veggjöldum. Af milljörðunum 120 er framlag til borgarlínu um 50 milljarðar en til annarra samgönguframkvæmda 70 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert