Verð á sýnum í landamæraskimun lækkað

Blaðamannafundur í Ráðherrabústaðnum. Alma Möller, Þórólfur Guðnason og Katrín Jakobsdóttir.
Blaðamannafundur í Ráðherrabústaðnum. Alma Möller, Þórólfur Guðnason og Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frá 1. júlí verður tekið gjald fyrir skimanir á landamærum en það verður 9.000 krónur, ekki 15.000 eins og áður var áætlað. 9.000 mun skimun kosta fyrir hvern þann sem kemur til landsins ef greitt er fyrir fram en 11.000 ef greitt er eftir á. Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag. 

Katrín sagði að þó ekki hafi greinst mörg smit á landamærum telji stjórnvöld rétt að haldið sé áfram að skima alla sem hingað koma nema þeir kjósi að fara í sóttkví. 

Stjórnvöld munu fylgjast með því hvaða áhrif gjaldtakan mun hafa en „stóru sjónarmiðin eru sóttvarnarsjónarmiðin,“ sagði Katrín. Endanleg ákvörðun um það hvaða löndum verður hleypt til Schengen liggur ekki fyrir en verður ákveðin á ráðherrafundi. 

Katrín ræddi einnig um innanlandssmitið sem tilkynnt var um í dag, það fyrsta í langan tíma. Hún sagði að margir hafi áhyggjur af því. „Þetta sýnir okkur hvað er mikilvægt að við höldum vöku okkar,“ sagði Katrín og nefndi í því samhengi handþvott, fjarlægð á milli fólks og annað slíkt. 

„Faraldurinn er enn í gangi í heiminum,“ sagði Katrín.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Stjórnarráðsins.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert