„Færeyingar hafa reynst okkur vel“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði með Jenis av Rana, mennta- …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði með Jenis av Rana, mennta- og utanríkisráðherra Færeyja, í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, fundaði með Jenis av Rana, mennta- og utanríkisráðherra Færeyja, í dag. Ráðherrarnir áréttuðu gagnkvæman ávinning þjóðanna af Hoyvíkursamningnum og lýstu yfir þeim vilja sínum að áfram verði haldið áfram að efla viðskipti landanna á grundvelli samningsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Jenis av Rana hefur verið í fríi hér á landi ásamt eiginkonu sinni Önnu av Rana.

„Samstarf frændþjóðanna hefur reynst heilladrjúgt í gegnum tíðina og var ánægjulegt að það skyldi takast að viðhalda Hoyvíkursamningnum sem innsiglar þessi nánu tengsl landanna. Færeyingar hafa reynst okkur vel og það er afar ánægjulegt að taka á móti ráðherranum og sýna honum landið okkar,“ sagði Guðlaugur Þór sem sýndi av Rana-hjónunum Snæfellsnes.

Ræddu frekara samstarf sem og alþjóðamál

Ráðherrarnir ræddu einnig hvernig efla mætti samstarf á öðrum sviðum eins og menntamálum, meðal annars á framhalds- og háskólastigi. Þá upplýsti Guðlaugur Þór Þórðarson um stöðu viðræðna Íslands og Bretlands um framtíðarsamskipti ríkjanna vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Þeir ræddu jafnframt alþjóðamál, þar með talið stöðu mála í Rússlandi og Kína.

Heimsfaraldur kórónuveiru bar á góma sem og efnahagslegar áskoranir honum tengdar og möguleika á nánara samstarfi á grundvelli árangursríkra viðbragða beggja ríkja við faraldrinum hingað til.

Á meðan á heimsókninni stendur mun færeyski ráðherrann einnig funda með menntamálaráðherra um samstarf landanna á sviði menntamála.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Jenis av Rana, …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Jenis av Rana, mennta- og utanríkisráðherra Færeyja. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is