Skoða að setja farþega frá áhættusvæðum í sóttkví

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Embætti landlæknis telur ekki hópsmit sem kom upp um helgina vera mjög útbreitt. Það sé þó gengið úr skugga um það með smitrakningu og raðgreiningu sýna. Þetta sagði Alma Möller á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Alma segir að skerpa þurfi á upplýsingagjöf til fólks við komuna til landsins um að sýnataka gefi ekki óyggjandi niðurstöðu. Þá segir hún að aukið álag hafi verið á smitrakningateymi vegna nafngreiningar knattspyrnukonunnar sem greindist með veiruna eftir komuna til landsins frá Bandaríkjunum. Enn er verið að skima mikið hjá fótboltafélögum en fleiri smit hafa ekki komið upp en fjögur. Grípa þurfi til ráðstafana ef fleiri hópsýkingar koma fram og fækka þeim sem mega koma saman. 

Frá blaðamannafundi almannavarna.
Frá blaðamannafundi almannavarna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Huga þarf betur að einstaklingssóttvörnum og fólk má ekki gleyma sér. Veiran er enn til staðar í samfélaginu. Erfiðara er að ráða við smit frá Íslendingum og því gæti verið skynsamlegra að setja Íslendinga sem hingað koma í sóttkví frekar en erlenda ferðamenn. 

Til skoðunar er að setja einstaklinga sem koma frá hááhættusvæðum í sóttkví og jafnvel prófa þá oftar en einu sinni. Skoða þurfi hvernig þessi hópsýking verður áður en teknar verða frekari ákvarðanir. 

Fólk sem tilheyrir áhættuhópum er beðið að vera á varðbergi og fylgja leiðbeiningum, forðast mannþröng og fara eftir tveggja metra reglunni. 

Hátt í fimm hundruð einstaklingar eru í sóttkví. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert