Breytt samkeppnislög samþykkt á þinginu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samþykkt var á Alþingi í nótt frumvarp iðnaðarráðherra um breytingar á samkeppnislögum. Frumvarpinu er ætlað að einfalda framkvæmd laganna, rýmka skilyrði fyrirtækja til sameiningar án atbeina Samkeppniseftirlitsins og greiða fyrir samvinnu samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndum í samræmi við milliríkjasamning þess efnis.

Veltumörk tilkynningarskyldra samruna eru hækkuð um 50% frá fyrri lögum og skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að heimilt sé að tilkynna samruna með styttri tilkynningu eru rýmkuð. Í stað þess að þurfa að tilkynna til Samkeppniseftirlitsins ef sameiginleg heildarvelta fyrirtækja, sem stendur til að sameina, er yfir tveir milljarðar króna verður viðmiðið nú þrír milljarðar króna. Þá er Samkeppniseftirlitinu jafnframt heimilt að framkvæma athuganir að beiðni samkeppnisyfirvalda annars staðar á Norðurlöndum.

Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum stjórnarþingmanna, þingmenn Miðflokksins og Viðreisnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna en aðrir stjórnarandstöðuþingmenn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í samtali við mbl.is í gær sagði Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, að hún teldi frumvarpið mjög slæmt inn í þær aðstæður sem væru í viðskipta- og efnahagslífinu.

Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá því drög að því voru upphaflega lögð fram. Þannig var í drögum gert ráð fyrir að heimild Samkeppniseftirlitsins til að áfrýja úrskurðum úrskurðarnefndar samkeppnismála til dómstóla yrði felld út, en þeirri ráðstöfun mótmælti Samkeppniseftirlitið harðlega og var breytingin felld út áður en frumvarpið var lagt fram.

Þá var í frumvarpinu gert ráð fyrir að heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots yrði felld út en horfið var frá því með breytingartillögu á síðustu dögum þingsins.

mbl.is