Ísland í forystu gegn kynbundnu ofbeldi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hlutverk Íslands í verkefninu rími …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hlutverk Íslands í verkefninu rími vel við markmið ríkisstjórnarinnar um að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland verður á meðal forysturíkja í átaksverkefni á vegum stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women. Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum) heitir verkefnið sem verður til næstu fimm ára.

Stofnunin kynnti verkefnið og fyrirkomulagið í tilkynningu sem var gefin út í dag og þar má sjá að Ísland er forysturíki í aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi (e. Gender Based Violence) ásamt Kenía, Bretlandi og Úrúgvæ.

Kynslóð jafnréttis er stærsta verkefni UN Women hingað til og meðal helstu áherslumála António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, segir á vef Stjórnarráðsins.

Markmið verkefnisins er að vinna markvisst að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur. Kynjajafnrétti er eitt af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Sérstaklega mikilvægt núna

Ríki, alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök og einkafyrirtæki voru valin á grundvelli umsókna til að leiða aðgerðabandalög um verkefni á sex málefnasviðum. 

„Víða um heim sjáum við að kynbundið ofbeldi hefur aukist vegna aðstæðna sem hafa skapast í COVID-19 faraldrinum. Því er þetta verkefni, Kynslóð jafnréttis, alveg sérstaklega mikilvægt núna. Ísland verður á meðal forysturíkja í þessu þýðingarmikla verkefni til næstu fimm ára og fær tækifæri til að móta aðgerðaráætlanir gegn kynbundnu ofbeldi á alþjóðavísu.

Hlutverk Íslands sem forysturíkis í þessu verkefni er í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi af öllu tagi,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

mbl.is