74% barna í 8.-10. bekk í vinnuskólanum

Samtals eru rúmlega 3.200 ungmenni skráð í vinnuskóla Reykjavíkur í …
Samtals eru rúmlega 3.200 ungmenni skráð í vinnuskóla Reykjavíkur í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Samtals eru 3.232 skráðir í vinnuskóla Reykjavíkur í sumar, en það eru tæplega 74% af öllum börnum sem voru í áttunda, níunda og tíunda bekk í grunnskólum borgarinnar í vetur. Fjölgar um rúmlega þúsund börn í vinnuskólanum milli ára. Hlutfallið er hæst hjá þeim sem koma úr áttunda bekk, eða 83%, en tæplega 62% hjá ungmennum sem voru að klára tíunda bekk.

Þetta kemur fram í svari mannauðssviðs borgarinnar við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar í vikunni.

Árið 2019 voru rúmlega 2.300 nemendur skráðir í vinnuskólann, en gert var ráð fyrir 2.900 skráningum í ár. Fjöldinn er eins og fyrr segir rúmlega 3.200 í ár, en samtals voru 4.377 í skólaárgöngunum þremur.

Þá kemur einnig fram í svarinu að áætlað hafi verið að ráða 832 einstaklinga í sumarstörf, auk 100 manns í störf hjá íþróttafélögum og æskulýðssamtökum. Fjöldi umsækjenda var 1.749.

Sem hluti af viðspyrnuaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins ákvað borgin að bæta við 800 sumarstörfum til viðbótar við þau 832 sem áður höfðu verið auglýst. Sumarstörfin eru fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, og eru með mótframlagi frá atvinnutryggingasjóði. Reykjavíkurborg bætti einnig við 200 viðbótarsumarstörfum fyrir 17 ára.

Samtals hafa 1.393 námsmenn verið ráðnir í sumarstörf, en tekið er fram að verið sé að ganga frá ráðningum í þau störf sem Vinnumálastofnun úthlutaði í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert