Eystri leiðin hættulegri en sú vestari

Vanur Esjufari verður ósjaldan vitni að grjóthruni í Esjunni og telur eystri leiðina upp að Steini hættulegri en þá vestari. Að sögn lögreglu féllu stór grjót úr klettabeltinu austan við Þverfellshorn í gærmorgun og forðuðu tvær konur sér naumlega undan skriðunni. 

„Eystri leiðin liggur eftir hlíðinni, undir klettunum. Það hefur áður gerst að grjóthrun hafi farið yfir þann stíg og niður fyrir hann,“ segir Leifur Hákonarson sem gengur á Esjuna nokkuð reglulega og hafði raunar lagt leið sína 1.326 sinnum á fjallið þegar blaðamaður mbl.is ræddi við hann fyrir tveimur árum síðan.

„Það var að mig minnir árið 2017 að það fór þarna nokkurra tonna stykki niður. Auðvitað er dálítið hættulegt að vera með stíginn þarna undir klettabeltinu og þá væri ekkert annað hægt að gera en að flytja alla umferðina yfir á hinn stíginn,“ segir Leifur. 

Leifur Hákonarson hóf sínar Esjugöngur fyrir fjörutíu árum síðan.
Leifur Hákonarson hóf sínar Esjugöngur fyrir fjörutíu árum síðan. Ljósmynd/Leifur Hákonarson

„Það er búið að endurbæta Vestari stíginn, sem er ekki í neinni svona hættu, mikið á síðari árum. Upphaflega hafði reyndar staðið til að flytja umferðina yfir á þann eystri. Hann var þá byggður upp. Hann var ekki til fyrr en fyrir kannski 10-15 árum síðan. Kannski hafa menn áttað sig á því að það væri ekki verulega skynsamlegt.“

Stöðugt grjóthrun í Esjunni

Leifur gekk á Esjuna í gær, stuttu eftir að grjóthrunið varð. Hann gengur alltaf vestari leiðina og varð því ekki var við hrunið eða ummerki þess. Hjá Steini voru 20-30 manns sem ekkert minntust á grjóthrunið. 

„Ég byrjaði að fara þarna upp fyrir fjörutíu árum síðan þegar eystri leiðin var ekki til og það er eins með þetta og annað, maður heldur því áfram sem maður er vanur.“

Mynd frá grjóthruninu árið 2013.
Mynd frá grjóthruninu árið 2013. Ljósmynd/Leifur Hákonarson

„Þegar steinn fer af stað þá fer hann bara af stað

Spurður hvort hann hafi oft orðið vitni að grjóthruni í Esjunni segir Leifur:

„Já, já. Á vorin passar maður sig sérstaklega á því hvar maður fer. Það er stöðugt grjóthrun. Esjan er eins og öll fjöll á leiðinni til hafs. Það gerist náttúrulega aðallega í vorleysingum.“

Leifur tekur þó fram að það sé ekki algilt og áður hafi orðið grjóthrun í Júlímánuði, til dæmis árið 2013 þegar nokkur björg fóru yfir eystri stíginn og mörkuðu djúp spor í svörðinn.

Leifur telur að merkingar sem myndu vekja athygli á hruninu myndu engu breyta. 

„Þegar steinn fer af stað þá fer hann bara af stað og þú getur ekkert gert. Það eina sem væri kannski hægt að gera væri að loka þessari eystri leið vegna þess að hin er ekki í neinni hættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert