„Brotalöm í okkar viðbúnaði“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í dag. mbl.is/Arnþór

Ein veirufræðirannsóknarstofa er á Íslandi sem hefur sinnt rannsóknum á undanförnum árum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir þetta „brotalöm í okkar viðbúnaði“ og taka þarf þetta til endurskoðunar þegar við gerum faraldurinn upp. 

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Alma Möller landlæknir sagði á fundinum að ekki væri langt síðan ákveðið var að styrkja veirufræðideild Landspítalans. Strax hafi verið farið í pantanir á tækjum en eftirspurnin sé mikil og því er ekki von á þeim tækjum sem þarf til að auka afkastagetu deildarinnar fyrr en í október. 

Nú er til skoðunar að ferðamenn frá fleiri löndum en Grænlandi og Færeyjum verði undanþegnir skimun við landamæri. Þórólfur segir að stefnt hafi verið að því áður en Íslensk erfðagreining tilkynnti að þætti fyrirtækisins í skimun á kórónuveirunni væri lokið eftir 13. júlí. Þórólfur segir að gert hafi verið ráð fyrir þátttöku ÍE í landamæraskimun út júlí en skriflegur samningur var ekki gerður. Gerður var vinnslusamningur við ÍE og Þórólfur segir að engar sérstakar ástæður voru uppi til að gera annan samning. 

Frá upplýsingafundi almannavarna í dag.
Frá upplýsingafundi almannavarna í dag. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert