Sýni aðgát við bókun pakkaferða

AFP

„Þótt við séum víða á flandri hér á Íslandi þá er staðan víða erlendis bara allt önnur,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Framboð á sólarlandaferðum er að aukast, þar sem aðeins hefur hægt á kórónuveirufaraldrinum víða. Samt sem áður eru mörg hótel enn lokuð, eins og t.d. á Tenerife.

Borið hefur á því að pakkaferðir hafi verið pantaðar með gistingu á hótel sem þegar eru lokuð vegna faraldursins. Breki bendir því neytendum á að sýna aðgát við bókun ferða og ganga úr skugga um að aðgengi að hótelum og afþreyingu sé viðunandi.

„Sér í lagi ber að fara varlega ef pantaðar eru pakkaferðir – það er ekkert víst að golfvellir og aðrir afþreyingarstaðir séu opnir. Fólk þarf að geta verið öruggt um það að afþreyingin sé sú sem það má vænta,“ segir Breki.

Neytendur geta átt rétt á bótum ef ferðaskrifstofur uppfylla ekki gefin loforð um gæði ferðarinnar.

„Ef það verður veruleg röskun þar þá á fólk rétt á því að aflýsa ferðinni, afpanta hana og fá endurgreitt að fullu,“ segir Breki. Ekki sé heldur ólíklegt að fólk sé fært á milli hótela, komi til lokana, og þá þurfi að gæta þess að hinn nýi kostur sé ekki verri en hótelið sem upp var gefið við pöntun.

Viðskiptavinir sem hafa pantað sólarlandaferðir sætta sig oftast við að skipta um hótel ef hið upprunalega í pöntuninni er lokað vegna faraldursins. Lítið er um að farþegar krefjist endurgreiðslna af þessu tilefni, að sögn Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra Úrvals-Útsýnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert