Kjarasamningur flugfreyja felldur í atkvæðagreiðslu

Félagsmenn FFÍ felldu kjarasamning sem samninganefndir félagsins og Icelandair skrifuðu …
Félagsmenn FFÍ felldu kjarasamning sem samninganefndir félagsins og Icelandair skrifuðu undir í júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagsmenn Flugfreyjufélags Íslands hafa fellt nýjan kjarasamning við Icelandair sem aðilar skrifuðu undir hjá ríkissáttasemjara 25. júní síðastliðinn. 

Kjörsókn var 85,3%. Alls greiddu 72,65% atkvæði gegn samningnum. 26,46% kusu með samningnum. 

Viðræður viðsemjenda verða teknar upp að nýju svo fljótt sem auðið er. Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að félagið muni nú meta þá möguleika sem eru í stöðunni. 

„Við höfum lagt allt kapp á að ná samningum við Flugfreyjufélag Íslands undanfarnar vikur og mánuði. Með þessum samningi gengum við eins langt og mögulegt var til að koma til móts við samninganefnd FFÍ. Þessi samningur hefði tryggt ein bestu kjör fyrir störf flugfreyja og flugþjóna sem þekkjast á alþjóðamarkaði en á sama tíma aukið samkeppnishæfni félagsins til framtíðar. Þetta eru því mikil vonbrigði. Nú verðum við að skoða þá möguleika sem eru í stöðunni og munum gera það hratt og örugglega. Það hvílir mikil ábyrgð á okkur sem stjórna félaginu að tryggja rekstrargrundvöll þess til framtíðar og þar með verðmæti fyrir þjóðarbúið og mikilvæg störf, þar á meðal störf flugfreyja og flugþjóna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. 

Góð kjörsókn sýnir ábyrgð 

Stjórn og samninganefnd FFÍ þakkar félagsmönnum fyrir samstöðu og stuðning í tilkynningu. Góð kjörsókn sýni ábyrgð og áhuga félagsmanna á starfskjörum sínum og vinnuumhverfi. 

Það að nýr kjarasamningur hafi verið felldur með afgerandi hætti sýnir vel að félagsmenn telji of langt gengið í þeim hagræðingarkröfum sem fólust í nýjum samningi. Stjórn og samninganefnd FFÍ munu nú fara yfir málið og mæta á fund ríkissáttasemjara þegar til hans verður boðað. 

mbl.is