Vopnaður og með hótanir

mbl.is/​Hari

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt mann sem var vopnaður og með hótanir. Maðurinn var handtekinn á fjórða tímanum í nótt í miðborginni (hverfi 101) en hann var í annarlegu ástandi. 

Annar maður er í haldi fyrir líkamsárás um miðjan dag í gær og að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var handtekinn í Kópavoginum klukkan 15:30 en hann var í annarlegu ástandi og með fíkniefni á sér. Hann vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.  Ekki er vitað um meiðsl þess sem varð fyrir árásinni.

 Á níunda tímanum í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af manni í annarlegu ástandi í Hafnarfirði.  Maðurinn var handtekinn grunaður um þjófnað úr verslun og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Tilkynnt var til lögreglu um rúðubrot í Austurbænum (hverfi 105) en rúða í bifreið hafði verið brotin og rótað í bifreiðinni. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ekki er vitað hvort einhverju hafi verið stolið úr bifreiðinni. 

Síðdegis í gær var síðan tilkynnt um þjófnað á dekkjum í Skútahrauni en þar hafði bæði dekkjum og felgum verið stolið undan bifreið. 

Um miðnætti var tilkynnt til lögreglu um bifreið sem skilin hafði verið eftir við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.  Ekki náðist í eiganda bifreiðarinnar og var bifreiðin fjarlægð með dráttarbifreið og sett í geymslu.

 

mbl.is