Þjóðhátíð „borin von“ vegna fjöldatakmarkana

Á annan tug þúsunda voru á Þjóðhátíð í Herjólfsdal á …
Á annan tug þúsunda voru á Þjóðhátíð í Herjólfsdal á síðasta ári. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Allt stefnir í að engin þjóðhátíð verði í Vestmannaeyjum í ár sökum kórónuveirufaraldursins. Jónas Guðbjörn Jónsson, varaformaður þjóðhátíðarnefndar, segir að ef fari svo að 500 manna fjöldatakmarkanir verði áfram í gildi út ágúst sé borin von að halda þjóðhátíð í nokkurri mynd. 

Jónas segir að stefnt hafi verið að því að halda þjóðhátíð fyrir heimamenn í Vestmannaeyjum þegar líklegt þótti að fjöldatakmarkanir yrðu rýmkaðar í 2.000 manns. Þeim áætlunum er þó sjálflokið að sögn Jónasar. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt það líklegt að fjöldatakmörkunum verði haldið í 500 manns út ágúst. Áður hafði Þórólfur lagt til við heilbrigðisráðherra að 2.000 manns mættu koma saman frá og með 13. júlí. 

Jónas segir að einhverjar þúsundir miða hafi selst á þjóðhátíð í ár og verið sé að vinna að því að endurgreiða miðana. Hann segir að skipulagning hafi verið sett á ís í mars og ekki verið komin langt. 

„Það stoppaði allt. Við vorum rétt farin af stað með forsölu þegar þetta fer allt í stopp. Við vorum bara í startholunum með það, því var bara sjálfhætt. Það var bara þessi óvissa og við vorum ekki að gera neitt í þessu á meðan,“ segir Jónas. 

Hann segist ekki vita til þess að hætt hafi verið við þjóðhátíð áður í 145 ára sögu hennar. Það hafi miklar afleiðingar fyrir Vestmannaeyjabæ að ekki verði af þjóðhátíð. 

„Þetta er mikið fjárhagslegt tjón fyrir ÍBV og samfélagið allt. Menningarlega hefur þetta líka afleiðingar, þetta er stór hluti af samfélaginu í Vestmannaeyjum og hefur menningarlegt gildi fyrir fólkið í eyjum,“ segir Jónas. 

„En við verðum bara að taka stöðuna núna eftir helgi en ég held að þessu sé bara sjálfhætt. Þetta er borin von með 500 manna takmarkanir. Mér sýnist allt stefna í að það verði ekkert. Við að sjálfsögðu fylgjum öllum reglum en við verðum að sjá hvað verður formlega ákveðið.“

mbl.is