75 ár frá fyrsta millilandafluginu

Flugbáturinn Catalina lendir á Reykjavíkurflugvelli.
Flugbáturinn Catalina lendir á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Eggert Norðdahl

Í dag eru liðin 75 ár frá því að íslenskt farþegaflug milli Íslands og annarra landa hófst. Fyrsta farþegaflugið með íslenskri vél var farið frá Reykjavík til Largs Bay í Skotlandi, en þar var á ferðinni fyrsti PBY-5 Catalina flugbátur Flugfélags Íslands. Var umrætt flug farið skömmu eftir að síðari heimstyrjöldinni lauk sumarið 1945. 

Höfðu for­ystu­menn bæði Flug­fé­lags Íslands og Loft­leiða, for­vera Icelanda­ir, keypt flug­báta á ár­inu á und­an í Banda­ríkj­un­um með það í huga að hefja flug til annarra landa. Loft­leiðamenn keyptu Grumman-flug­bát og Flug­fé­lags­menn Ca­tal­ina-flug­bát og á þeim flug­vél­um var flogið til að byrja með.

En segja má að fyrsta raun­veru­lega milli­landa­flug­vél Íslend­inga hafi verið hin 46 farþega Douglas DC-4 Skyma­ster, sem ým­ist var kölluð Hekla eða „Fjarkinn“, en Lof­leiðir hófu rekst­ur henn­ar 1947.

Sérstök athöfn var haldin í Skotlandi í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá framangreindu flugi árið 2015, en tímamótunum var fagnað með ýmsum hætti sama sumar. 

mbl.is