43 greindir með sárasótt

mbl.is

Sáraótt og lekandi halda áfram að vera sérstakt áhyggjuefni segir í Farsóttarfréttum embættis landlæknis sem komu út á föstudag.

Fyrstu sex mánuði ársins greindust 43 einstaklingar með sárasótt sem er umtalsverð aukning miðað við fyrri ár. Eins og árin á undan voru karlar í miklum meirihluta eða 91%. Tæplega helmingur þeirra sem greindust eru íslenskir ríkisborgarar.

Lekandi færist einnig í vöxt. Fyrstu sex mánuði ársins höfðu 68 einstaklingar greinst með sjúkdóminn sem er meira en undanfarin ár á sama tíma. Því er eins farið og með sárasóttina að flestir sem greindust eru karlar eða 69% og flestir íslenskir ríkisborgarar eða 81%.

Drifkrafturinn í útbreiðslu sárasóttar og lekanda eru karlar. Klamydía er eftir sem áður útbreiddasti kynsjúkdómurinn hér á landi en fyrstu sex mánuði þessa árs greindust 834 einstaklingar sem er svipað og árin á undan. Konur sem greindust eru eins og áður nokkru fleiri en karlar eða 56%.

mbl.is