Veikir ÖSE vonandi ekki til frambúðar

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vonandi mun þetta ekki skilja stofnunina eftir veikari en það segir það sig sjálft að þessi atlaga að hlutverki hennar veikir hana að minnsta kosti tímabundið þó það verði vonandi ekki lengi. En það er alls ekki hægt að útiloka það.“

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um framtíð ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Greint var frá því í gær að fulltrúar Tyrklands, Tadsíkistan og Aserbaídsjan hefðu nýtt sér neitunarvald sitt til að koma í veg fyrir að þrír forstjórar undirstofnana ÖSE, þ.e. mannréttinda- og lýðræðisstofnunar, stofnunar um fjölmiðlafrelsi og stofnunar sem snýr að réttindum minnihlutahópa, fengju að halda starfi sínu. Fulltrúar ríkjanna komu einnig í veg fyrir að skipun forstjóra ÖSE yrði framlengd.

Verið að reyna draga tennurnar úr stofnuninni

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, var skipuð forstjóri mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE árið 2017 til þriggja ára en skipun hennar verður ekki framlengd vegna þess að fulltrúar Tyrklands og Tadsíkistan lögðust gegn því. Öll 57 aðildarríki að ÖSE hafa neitunarvald þegar kemur að skipun æðstu embættismanna.

„Stofnunin er byggð upp með þessum hætti til að reyna hafa sem mesta sátt um starfsemi hennar. Þegar þessir fjórir aðilar voru skipaðir á sínum tíma þá var mjög breið samstaða um það,“ segir Guðlaugur spurður um andstöðu ríkjanna og bætir við:

„Það sem menn eru náttúrulega að reyna gera er að draga tennurnar úr þegar kemur að hlutverki stofnunarinnar að standa vaktina þegar kemur að mannréttindum og frelsi fjölmiðla.“

Hafa verið gagnrýnd fyrir framgöngu í mannréttindamálum

Ingibjörg Sólrún greindi frá því í gær að Tyrkir hefðu sett sig upp á móti henni vegna þess að þeir hafa viljað að hún útilokaði ákveðin félagasamtök frá fundum stofnunarinnar.

Tyrkir haldi því fram að umrædd samtök séu hryðjuverkasamtök en Ingibjörg segist ekki hafa séð neinar sannanir fyrir því. Auk þess gæti hún ekki ákveðið upp á sitt einsdæmi að útnefna samtök sem hryðjuverkasamtök.

Guðlaugur tekur fram að andstaða þessara fáu ríkja snúi ekki að persónum þeirra einstaklinga sem hafa sinnt þessum embættum og að breið samstaða ríki á meðal annarra ríkja.

„Það er öllum ljóst að þetta snýr ekki að einhverjum persónum heldur snýr þetta að því að því að gera stofnuninni erfiðara fyrir í hlutverki sínu sem snýr meðal annars að því að gæta að mannréttindum í aðildarríkjunum.“

„Það er ekki hlutverk embættismanna eða forstjóra í stofnun sem þessari að handvelja frjáls félagasamtök og banna þeim að mæta á fundi stofnunarinnar – ég er raunar á alfarið á móti slíkum vinnubrögðum — en ef ætti að koma þeim á þá væri það hlutverk aðildarríkja ÖSE að koma sér saman um reglur þar að lútandi en ekki embættismanna sem starfa í þeirra umboði,“ segir hann og bætir við að ríkin sem beittu neitunarvaldinu hafi verið gagnrýnd fyrir framgöngu þeirra í mannréttindamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert