Enn meiri úrkoma í kortunum

Ferðamenn í rigningu á Skólavörðustíg.
Ferðamenn í rigningu á Skólavörðustíg. mbl.is/Árni Sæberg

Lægð fer yfir landið í dag og hefur henni fylgt talsverð úrkoma og er meira af henni í kortunum. Það hvessir úr norðaustri á norðvestanverðu landinu og má búast við að vindhraði verði allt að 20 m/s og hvassari í hviðum. 

Suðaustan 10-15 m/s á Suðausturlandi, en hægari vindur annars staðar. Mikil rigning á Vestfjörðum og Ströndum, annars rigning með köflum, en úrkomulítið á Norðausturlandi, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Útlit er fyrir að lægðin ætli að staldra dálítið við fyrir austan land og þá er útlit fyrir norðlæga átt og kalsarigningu á öllu norðanverðu landinu alla helgina. Hiti jafnvel niður í 3 til 4 stig þar og slydda eða jafnvel snjókoma til fjalla á Vestfjörðum. Á sunnanverðu landinu má þó búast við þurru og björtu veðri í norðanáttinni þó dálítið kaldara verði á mörgum stöðum en verið hefur undanfarna daga.

Gefnar hafa verið út gular viðvaranir vegna veðurs fyrir þessi landsvæði. Fólk er hvatt til að skoða þær og fylgjast með hvort nýjar viðvaranir verði gefnar út fyrir helgina.

mbl.is